139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Aðkoma mín að þessu máli var fyrst í gegnum þær breytingar sem voru lagðar til á Varnarmálastofnun, það var þá sem áhugi minn kviknaði. Ég reyndi að nálgast það mál með mjög jákvæðum huga og fór þá í utanríkismálanefnd en endaði síðan með því að segja hreinlega að ég gæti engan veginn tekið undir þær tillögur sem komu frá stjórnvöldum, þær breytingar sem þar voru lagðar til, vegna þess að ég hefði sjaldan eða aldrei séð jafnilla undirbúnar og rökstuddar breytingar á stofnun, óháð starfsemi stofnunarinnar.

Stuttu áður hafði nýlega komið út skýrsla þar sem verið var að fjalla um reynsluna af sameiningu stofnana. Þar var fjallað töluvert um breytingastjórnun, hvernig maður nálgast það annaðhvort að setja á stofn nýja stofnun, sameina eða breyta hlutverki viðkomandi stofnana. Sýnt var fram á það með góðum rökum að ríkið hefur almennt staðið sig mjög illa í þessu. Ég held að það sé tækifæri núna hvað varðar Landhelgisgæsluna. Í staðinn fyrir að hlaupa til og leggja niður stofnun, stofna nýja, eða gera eitthvað einn, tveir og þrír, ættum við að hugsa okkur um og marka stefnu til framtíðar. Við ættum að fara í raunverulega vinnu í samstarfi við starfsmennina og í samstarfi við þá sem eru á Suðurnesjum um sýn okkar fyrir framtíðina.

Við framsóknarmenn ályktuðum á síðasta flokksþingi sérstaklega um það að nú á næstu árum og áratugum mun flutningur á sjó á norðurslóðum aukast mjög. Sú aukna umferð kallar á aukið eftirlit með sjóferðum þannig að mikið tækifæri er fyrir okkur að byggja upp alþjóðlegt öryggis- og björgunarlið sjóferða hér og hafa höfuðstöðvar hér. Ég tel að með því að efla Landhelgisgæsluna, með því að tryggja að hún haldi áfram verkefnum Varnarmálastofnunar og að hún sé staðsett á Suðurnesjum, (Forseti hringir.) getum við virkilega byggt upp eitthvað nýtt, eitthvað öflugt sem mun skipta máli innan lands og líka á alþjóðavettvangi.