139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

Schengen-samstarfið.

779. mál
[16:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í fréttum fyrir stuttu síðan var vitnað í formann norska lögreglufélagsins þar sem sá ágæti maður sagðist telja að opin landamæri hefðu leitt til þess að 80% glæpa sem framdir eru í Noregi og á öðrum Norðurlöndum tengist glæpamönnum sem annaðhvort eru frá Eystrasaltslöndum eða hafa tengst skipulagðri glæpastarfsemi þar. Menn geta haft alls konar skoðanir á því að setja málið fram eins og Norðmaðurinn gerir en við hljótum að spyrja okkur hvort tölfræðin sem Norðmaðurinn vitnar í sé rétt og hvort hið sama eigi við um Ísland.

Ég vil fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra ætli sér að gera úttekt á Schengen. Ég geri ráð fyrir því og ætla að leyfa mér að segja að í framhaldinu hljótum við að endurskoða samstarfið. Ég hef þá trú að úttektin muni leiða til svipaðar niðurstöðu og í Noregi og ég vitnaði í.