139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

Schengen-samstarfið.

779. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans og hv. þingmönnum fyrir umræðuna. Ég vil reyndar byrja á því að fagna því að hann taki undir með mér um að æskilegt sé að gera úttekt á þessu samstarfi og hyggist gera það og skoða hvort þær ályktanir sem menn hafa dregið af því séu réttar, að það hafi valdið þeim vanda sem raun ber vitni varðandi fanga í fangelsum á Íslandi og kostnaði þar að lútandi.

Einu hef ég velt fyrir mér í sambandi við það, kannski getur ráðherra svarað því hér og nú, svo virðist vera að einhverjum meiri erfiðleikum sé bundið að senda fólk utan vegna dóma. Ég heyrði um daginn í fréttum að íslenskur aðili var dæmdur í Danmörku til fangelsisvistar og sendur úr landi. Ég velti fyrir mér hvort hið sama gildi ekki hjá okkur.

Varðandi þá staðreynd að það sé fyrst og fremst EES-samningurinn sem tryggi þetta frjálsa flæði en ekki Schengen-samstarfið þá finnst mér því enn ósvarað af hverju Bretar, Írar og Kýpurbúar, sem eru ekki bara á EES-svæðinu heldur í ESB virðast geta haldið uppi sambærilegu eftirliti en þurfa ekki að taka þátt í Schengen-samstarfinu. Ég hef velt því fyrir mér og rætt það við aðra hæstv. ráðherra og vil ræða það hér, hvort ekki sé æskilegt að taka strax til skoðunar hvort við getum náð þeim ávinningi sem er í dag innan EES-samningsins, eins og hjá ESB-ríkjunum, og fá á sama hátt og til að mynda Bretar og Írar aðgang að sama upplýsingakerfi og þar er, svokölluðu SIS-upplýsingakerfi eða VIS-upplýsingakerfi og Europol og Interpol og öðru í þeim dúr. Mér finnst það áhugaverð pæling.