139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

niðurstaða kærunefndar jafnréttismála og rýnihóps.

[10:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og frægt er orðið beitti hæstv. forsætisráðherra sér fyrir því á sínum tíma að breyta jafnréttislögum á þann veg m.a. að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála væru bindandi. Það má kannski segja að örlögin geti verið köld og grimm og skepnan rísi stundum gegn skapara sínum því að þá gerðist það að kærunefndin úrskurðaði að hæstv. forsætisráðherra hefði gerst brotleg við jafnréttislög.

Þegar svo er komið eru valkostirnir mjög skýrir. Annaðhvort vefengir hæstv. forsætisráðherra í þessu tilviki úrskurð kærunefndar og þá er höfðað dómsmál ellegar hæstv. forsætisráðherra fellst á þennan úrskurð og þá gerist það að greiða þarf skaðabætur þeim sem brotið hefur verið á. En hæstv. forsætisráðherra kaus að finna sér hjáleið og hjáleiðin var sú að skipa sérstakan rýnihóp sem ekki er sérstaklega gert ráð fyrir í jafnréttislögunum. Hlutverk rýnihópsins var að fara yfir úrskurð kærunefndarinnar og niðurstaða rýnihópsins liggur fyrir eins og allir vita. Þá vaknar sú spurning hvernig hæstv. forsætisráðherra hyggst nú bregðast við. Nú liggur fyrir bindandi úrskurður kærunefndar, það liggur fyrir álit rýnihópsins sem dregur í efa niðurstöður kærunefndarinnar og er það sjónarmið út af fyrir sig en hefur í raun og veru ekkert með þessa ákvörðun að gera, er ekkert innlegg í málið. Niðurstaða rýnihópsins er ekki bindandi. Þetta er bara afstaða þeirra einstaklinga sem í rýnihópnum sitja.

Nú er spurningin þessi til hæstv. forsætisráðherra: Telur hæstv. forsætisráðherra að úrskurður kærunefndar hafi verið rangur og hún hafi ekki brotið lög? Hyggst hæstv. forsætisráðherra þar með höfða dómsmál? Ef það er niðurstaðan hins vegar að jafnréttislög hafi ekki verið brotin, (Forseti hringir.) hvernig getur hæstv. forsætisráðherra þá dottið í hug að greiða bætur á þessum grundvelli? Þessum spurningum þarf hæstv. forsætisráðherra að svara.