139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

brottfelling fyrstu laga um Icesave.

[10:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu fagna ég þessum orðum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann fer með málið nú þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi komið því af stað. Sú staðreynd er ljós að lög nr. 96/2009 eru í gildi og undir þeim stendur undirskrift hæstv. fjármálaráðherra frá því á þessum tíma. Þess vegna langar mig til að koma því áleiðis til forseta þingsins að það frumvarp sem ég hef lagt fram ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins fái forgang í dagskrá þingsins, verði sett á dagskrá svo það komist til 1. umr., til umsagna, og það verði verk okkar þingmanna á vorþingi að fella þau lög úr gildi.