139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

launagreiðslur til stjórnenda banka og skilanefnda.

[10:49]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil mjög gjarnan svara þeim fyrirspurnum sem þingmenn bera fram en við það verður að taka mið af þingsköpum og eðli þess máls sem spurt er um. Í 49. gr. þingskapa er talað um rétt alþingismanna til að biðja ráðherra að svara um mál, einstök málefni sem ráðherra ber ábyrgð á. Í spurningu hv. þingmanns er spurt um sagnfræðilegar rannsóknir, um hvernig launaákvörðunum var háttað í einkafyrirtækjum í fortíðinni fyrir hrun, fyrirtækjum sem voru ekki á nokkurn hátt á ábyrgð stjórnvalda heldur einkafyrirtæki á markaði og ákváðu sín laun sjálf. Síðan er spurt um ákvarðanir vegna banka eftir hrun en ákvarðanir þar eru á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra og eru ekki á ábyrgð efnahags- og viðskiptaráðuneytisins enda fellur Bankasýslan undir verksvið hæstv. fjármálaráðherra og fyrirspurninni því rétt beint þar.

Að því leyti sem þessar upplýsingar eru fyrir hendi, sem ég held að þær séu að flestu leyti, jafnvel hjá slitastjórnum og skilanefndum — ég er reyndar með frumvarp hér á eftir til að reyna að fella slitastjórnir og skilanefndir undir eftirlit — en að því leyti sem þessar upplýsingar eru á opinberu framfæri eru þær öllum aðgengilegar en þeim hefur ekki verið haldið saman skipulega í ráðuneyti efnahags- og viðskiptamála frekar en kannski annars staðar í samfélaginu. Það er alveg spurning hvort alþingismenn eigi að beina fyrirspurnum um almennar samantektir til ráðuneyta eða hvort það eigi bara einfaldlega að vera verkefni upplýsingaþjónustu þingsins að taka saman opinberar upplýsingar úr almennri þjóðmálaumræðu.

Í ljósi alls þessa og hvað varðar tímafresti þá var fyrirspurnin, daginn eftir að hún kom, send til Fjármálaeftirlitsins, sem fer með eftirlit með fjármálastofnunum á fjármálamarkaði, og kannað var hvort Fjármálaeftirlitið (Forseti hringir.) hefði gögn en svar Fjármálaeftirlitsins er að það hafi ekki tiltæk gögn.