139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjárfestingar og ávöxtun lífeyrissjóðanna.

[10:53]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Fjársterkir aðilar segjast ekki finna önnur fjárfestingartækifæri en kaup á fasteignum vegna gjaldeyrishaftanna. Því ber auðvitað að fagna að fjármagnseigendur séu byrjaðir að taka út innstæður sínar, innstæður sem skattgreiðendur tryggðu að fullu og bankarnir ávöxtuðu með því að leggja þær inn á reikning í Seðlabankanum til að ná hærri ávöxtun en markaðurinn er tilbúinn að greiða.

Skortur er á fjárfestingartækifærum vegna tregðu stjórnvalda og banka að leiðrétta skuldir fyrirtækja og heimila og því er offramboð á lánsfjármagni. Í umferð eru verðbréf og innstæður sem urðu til í bóluhagkerfi sem sprakk án þess að verðmæti þeirra hafi lækkað. Það hafa eignirnar hins vegar gert sem upphaflega var fjárfest í með þessum verðbréfum og innstæðum. Ójafnvægið kemur m.a. fram í aflandskrónuvanda sem nemur 460 milljörðum.

Önnur ástæða fyrir ójafnvæginu eru lífeyrissjóðirnir sem eru orðnir allt of stórir fyrir íslenska hagkerfið. Lífeyrissjóðirnir ná ekki 3,5% raunávöxtun vegna skorts á fjárfestingartækifærum og uppi eru hugmyndir um að stækka eign sjóðanna innan lands með því að fá þá til að flytja eignir heim með kaupum á aflandskrónum á uppboðsmarkaði.

Frú forseti. Ég vil því spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann telji einhverjar líkur á að lífeyrissjóðirnir nái 3,5% raunávöxtun fram til loka árs 2015 eða þar til búið er afnema gjaldeyrishöftin.