139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

staða minni og meðalstórra fyrirtækja.

[11:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. 15. desember sl. var gert samkomulag sem að stóðu ríkisvaldið, fjármálafyrirtækin og Samtök atvinnulífsins um úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í því var gert ráð fyrir því að tillögur um fjárhagslega endurskipulagningu lægju fyrir eftir hálfan mánuð, 1. júní nk. Það er enginn vafi á því að margir bundu mjög miklar vonir við þetta. Það höfðu borist um það fréttir að allt að 7 þús. fyrirtæki færu inn á þessa braut sem kölluð hefur verið Beina brautin í daglegu tali. Ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra út í þessi mál 28. mars sl. og þá kom í ljós að það eru ekki 7 þús. fyrirtæki sem munu fara inn á þessa braut heldur mögulega 1.700. Á þeim tíma var aðeins búið að senda tilboð til 363 fyrirtækja. Ég spurði sérstaklega í þessari fyrirspurn hvernig þessu væri skipt á milli bankanna, hvernig bankarnir hefðu staðið sig hver og einn í þessu sambandi. Því miður fékk ég ekki svar við þeirri spurningu og það tel ég mjög gagnrýnivert. Það er borið við bankaleynd og auðvitað á hún rétt á sér í mörgum tilvikum, en að mínu mati stenst alls ekki í þessu tilviki að bera fyrir sig bankaleynd til að veita ekki almennar upplýsingar um það hvernig bankarnir standa sig. Það er hluti af eftirliti og vilja til að knýja á um úrlausnir að við fáum þessar upplýsingar. Það má líka benda á að ríkisvaldið er með beinum hætti aðili að þessu samkomulagi.

Það fer ekkert á milli mála að eftir því sem þessum málum hefur undið fram hefur Beina brautin sætt vaxandi gagnrýni. Sumir hafa talað um að þetta sé bein braut til glötunar fyrir ýmis fyrirtæki. Þau tilboð sem fyrirtækin fá eru sögð líkari afarkostum sem menn hiki við að taka. Það fer þess vegna ekkert á milli mála í þessu sambandi hver er sterkari aðilinn í þessum samningaviðræðum, fyrirtæki sem eru í þrengingum eða bankinn sem fyrirtækið er að ræða við.

Uppstillingin er sú sem samkomulagið gerir ráð fyrir, annars vegar er lagt mat á rekstrarvirði fyrirtækisins og hins vegar eignavirði. Það af þessu tvennu sem er hærra er þá lagt til grundvallar. Þetta mat fer fram einhliða hjá bönkunum og fyrirtækin hafa í sjálfu sér lítið um það að segja. Í samningunum um Beinu brautina er talað um að það megi kalla sérstaka úrskurðarnefnd eða gerðardóm til þessa mats ef ágreiningur rís og þess vegna væri fróðlegt að vita í hversu mörgum tilvikum sú heimild hefur verið notuð.

Því fylgir mikil áhætta þegar þannig er gengið fram að menn geri ráð fyrir því að öll framlegð fyrirtækjanna og jafnvel meira til fari til þess að standa undir skuldbindingum fyrirtækjanna við fjármálastofnanir. Það er ekki bara verið að skoða framlegðina eins og hún stendur núna heldur er líka gert ráð fyrir einhverri væntri framlegð sem megi byggja á. Þetta gerir það að verkum að fyrirtækin hafa ekki svigrúm til neinna fjárfestinga. Áhugi og vilji eigendanna til að gera betur dvín vegna þess að mögulegur hagnaður þeirra rennur eingöngu til að þjónusta skuldirnar við bankana. Það er ekki gert ráð fyrir því við endurskipulagningu skuldanna að færðar séu niður viðskiptaskuldir, eðlilega ekki, enda ljóst að slíkt mundi koma af stað slíkum spíraláhrifum í atvinnulífinu að það mundi enda með hreinni skelfingu.

Þá eru líka dæmi um það að í tilboðum bankanna sé gert ráð fyrir því að framlegðin gangi öll til að greiða af skuldum við fjármálastofnanir. Þá eru eftir persónulegar skuldir fyrirtækjanna við eigendur og þess vegna hanga þær áfram eins og myllusteinn um háls eigenda og fyrirtækja. Það er þess vegna kannski ekki að undra þó að seint gangi. Fyrirtækin hafa takmarkaðan áhuga í mörgum tilvikum á að undirgangast skuldbindingar sem eru þess efnis að þau ráða illa við þær.

Um leið og menn eru líka komnir af stað inn í þessi úrræði er líkt og það sé útilokað að fá frekari úrlausn mála sinna. Engar frekari lánveitingar standa til boða og ekki heldur fjármögnun á fjárfestingarkostum meðan á þessu stendur. Mér er til dæmis kunnugt um fyrirtæki sem íhuga einmitt núna þessa dagana að hverfa af þessari braut sem þau kusu þó að feta í upphafi vegna þess að menn telja sig ekki sjá neitt ljós við enda ganganna og skynja umhverfið þannig að Beina brautin sé fremur að loka leiðinni en opna hana.

Síðan er eitt í viðbót. Þessa dagana er verið að kynna nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða. Það er alveg ljóst að það frumvarp, hvaða skoðun sem menn hafa á því að öðru leyti, mun leiða til lækkunar á kvótaverði og þar með eigna- og rekstrarvirði fyrirtækjanna. Bankarnir hafa sjálfir búið til viðmiðunarverð um kvótann og haldið þannig verðmæti fyrirtækjanna uppi til að þurfa ekki að grípa til niðurfellingar skulda nema í sem minnstum mæli. Nú hlýtur því að ljúka. Ríkisstjórnin hefur sett fram mjög skýra skoðun. Hún felur klárlega í sér aðgerðir sem munu lækka kvótaverð og torvelda lánsfjármögnun með ákvæðum sem birtast í frumvarpinu. Fjármálafyrirtækin verða þess vegna að lækka verðmatið á sjávarútvegsfyrirtækjum og viðurkenna frekari afskriftir. Auknar afskriftir og aukin töp hjá fjármálastofnunum verða með öðrum orðum afleiðingar af stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegi.