139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

staða minni og meðalstórra fyrirtækja.

[11:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir þingmenn og ráðherrar hér þakka ég kærlega fyrir þessa umræðu, hún er mjög brýn. Það er fátt sem skiptir okkur meira máli en að staða lítilla og meðalstórra fyrirtækja skýrist og við getum farið að horfa til þess að hin raunverulega endurreisn atvinnulífsins hefjist.

Ef við horfum t.d. á þær tölur sem höfum verið að sjá frá því eftir hrun höfum við náð Íslandsmeti í falli í fjárfestingum á Íslandi og það er Íslandsmet sem hefur svo sem bæst við fjölmörg önnur met sem hafa verið sett í framhaldi af hruninu.

Nú er kominn tími til þess að snúa þessu við. Beina brautin var jákvætt skref, það var jákvætt að þar tóku stjórnvöld og fulltrúar atvinnulífsins höndum saman um það að drífa í endurskipulagningu fjárhags fyrirtækja en hins vegar hefur sú endurskipulagning gengið allt of hægt að mínu mati. Þetta er náttúrlega eitt af því sem menn hefðu átt að fara í strax í framhaldi af bankahruninu en loksins gerðu menn sér grein fyrir að nauðsynlegt væri að fara í þetta.

Það eru nokkrir hlutir sem ég vildi nefna sem ég tel mjög brýnt að farið verði í núna til að við getum farið að ljúka þessu stóra verkefni. Ég tel nauðsynlegt að auka gegnsæið í afskriftum þannig að upplýsingar verði birtar um afskriftir, að sett verði aukin pressa á fjármálafyrirtækin um að ljúka endurskipulagningunni samkvæmt þeim tillögum sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur talaði um, í gegnum eiginfjárkröfur og annað ef hlutfall vanskilalána er hátt og að þau þurfi að fara að selja þær eignir sem þau hafa tekið yfir og koma þeim í vinnu annars staðar en fyrir bankakerfið.

Ég vil líka að við horfum til framtíðar og að sett verði á stofn ráðgjafarstofa fyrir fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum vegna þess að það er ekki bara í tengslum við heilt efnahagshrun sem fyrirtæki fara í gjaldþrot (Forseti hringir.) heldur má segja að það sé nánast eðlilegt í eðlilegu ástandi að fyrirtæki fari í þrot alveg eins og menn starta fyrirtækjum og þá þurfum við að hafa stoðkerfi fyrir það alveg eins og fyrir nýsköpun fyrirtækja.