139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

staða minni og meðalstórra fyrirtækja.

[11:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þá miklu samstöðu sem er um það verkefni sem við stöndum frammi fyrir sem komið hefur fram í umræðunni. Það er mikilvægt að styðja við ferlið og að þverpólitískur skilningur sé á mikilvægi þess. Við þurfum að auka gagnsæi í meðferð skuldamálanna og það höfum við gert. Eftirlitsnefndin mun skila skýrslum sérstaklega og munum við gera það líka um framgang Beinu brautarinnar.

Það er auðvitað hætta á ofskuldsetningu en við beitum bankana gríðarlega miklu aðhaldi til að koma í veg fyrir það. Við aukum áhættuálag á vanskilaskuldir og við breytum eftirlitskerfunum þannig að það verði bönkunum mjög dýrt að gera ekkert í skuldamálunum. Eftir að fyrirtækin fara í gegnum skuldaúrvinnslu þurfa eftirlitskerfin að horfa mjög stíft á hvort lán fari aftur í vanskil og taka mjög hart á því ef það gerist.

Við erum líka að vinna með Samkeppniseftirlitinu sem mun að sjálfsögðu hafa eftirlit með því að skuldsetning fyrirtækjanna verði ekki þannig að þau séu ófrjáls að markaðshegðun sinni og í raun undir yfirráðum banka. Við munum sækja að bönkunum úr öllum áttum hvað það varðar og tryggja að þeir skili ekki fyrirtækjunum of skuldsettum út í atvinnulífið því að við eigum mikið undir því að þau geti ráðist í ný verkefni og ráðið til sín nýtt fólk.

Að síðustu varðandi gjaldþrotin. Hv. þingmaður spyr hvort aukin sóun felist í því að 1.500 lítill og meðalstór fyrirtæki verði gjaldþrota. Svar mitt er nei. Í því felst óhjákvæmileg aðlögun að nýjum veruleika. Við verðum að hafa burði til þess að hreinsa út það sem er ónýtt og byggja upp eitthvað nýtt sem á sér raunverulegar rekstrarforsendur. Fyrirtæki sem eiga sér ekki raunverulegar rekstrarforsendur eru engum til góðs. Þau halda góðu vinnuafli frá því að vinna annars staðar við verðmætaskapandi störf og við verðum að komast út úr stöðnuninni, við verðum að skapa ný störf, (Forseti hringir.) ný tækifæri. Það verða að verða til ný fyrirtæki sem eiga sér vaxtarforsendur til að við eigum raunverulegan kost á velmegun til lengri tíma litið.