139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[11:57]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps. Þetta er frumvarp sem þingið hefur lengi kallað eftir og ástæðan fyrir því eru vísbendingar um að laun slitastjórna og skilanefnda séu mun hærri en greidd eru fyrir sambærileg störf í öðrum geirum. Auk þess hefur verið talað um að það skorti gagnsæi í störfum bæði slitastjórna og skilanefnda.

Herra forseti. Ég er ekki alveg sannfærð að frumvarpið feli í sér tæki til FME til að taka á launamálum. Fram til þessa hefur ábyrgðin á slitastjórnum verið hjá héraðsdómi og eftirlitið hjá kröfuhöfum en kröfuhafar hafa að mínu mati staðið sig illa hvað það varðar að kvarta yfir miklum kostnaði við rekstur á þessum gömlu bönkum eða þrotabúum. Ég skil reyndar ekki hvers vegna einn stærsti kröfuhafinn sem er ríkið, og það er hæstv. fjármálaráðherra sem fer með málefni ríkisins þegar kemur að kröfum í þrotabúin, hefur ekki gengið niður í héraðsdóm og kvartað yfir miklum kostnaði við rekstur og slit á þrotabúum bankanna.

Ég vil ítreka efasemdir mínar og spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Hvað í þessu frumvarpi tryggir að hægt sé að koma einhverjum böndum á launagreiðslur til (Forseti hringir.) skilanefndar- og slitastjórnarmanna?