139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[12:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðara atriðið sem hv. þingmaður nefnir segir í lokamálslið 1. mgr. 3. gr.:

„Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur meðal annars í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.“

Með þessu ákvæði teljum við okkur geta gefið Fjármálaeftirlitinu heimildir til þess að taka á því ef slitastjórnir virða ekki úrræði eins og Beinu brautina eða endurreikning gengistryggðra lána eða ýmis önnur tilmæli sem beint hefur verið til fjármálafyrirtækja á grundvelli laga eða er beint til þeirra á grundvelli samkomulaga sem ríkisvaldið hefur gert við fjármálafyrirtæki með gilt starfsleyfi um meðferð skuldamála.

Varðandi síðan að öðru leyti spurninguna um launin held ég að mikilvægt sé að leggja áherslu á hvað ég tel eðlilegt að við gerum. Ég vil stöðva sjálftöku, það á aldrei að vera grunur um sjálftöku manna á launum en ég vil ekki að það sé eitthvert sjálfstætt markmið að lækka laun. Ef efnisleg rök eru fyrir því að borga há laun til skilanefndarmanna er það allt í lagi fyrir mér. Ef það er þannig að kröfuhafar, útlendir kröfuhafar telji eðlilegt að greiða þetta afgjald fyrir þjónustu finnst mér það ágætt. Ég sé ekki sérstaka ástæðu til þess að Íslendingar séu á lægri launum en útlendingar og ég tel ekki að það sé markmið á Íslandi að lækka laun Íslendinga í samanburði við útlendinga heldur þvert á móti að hækka laun Íslendinga til samræmis við það sem er í útlöndum. Ég tel ekki að við eigum að skattleggja þá fáu Íslendinga sem ná að vinna sér inn tekjur á erlendum forsendum, það er mjög mikil öfugþróun. Við eigum þvert á móti að reyna að leita leiða til þess að allir Íslendingar fái hærri laun og við komumst út úr stöðnun og einangrun. Markmiðið er að (Forseti hringir.) stöðva sjálftöku en það er ekki markmið að setja á einhver almenn launaþök.