139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[12:12]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að reyna að binda enda á þetta ferli og koma því í farveg. Mér finnst ekki rétt að stilla málum þannig upp að vega að dómsvaldinu með þeim hætti að það sé við það að sakast að úrlausn dómsmála vegna hrunsins taki tíma. Dómsvaldið hefur sýnt mikinn samvinnuvilja til að hraða meðferð þeirra mála sem hafa haft lykiláhrif á túlkun bæði réttarágreinings vegna skuldamála og þeirra mikilvægu mála er varða forgangsrétt innstæðna. Ég held líka að það sé mjög mikilvægt að við virðum forræði dómsvaldsins á eigin málum. Ég hef efasemdir um að löggjafarvaldið setji dómsvaldinu forskrift um verklag. Ég er ekki alveg sannfærður um að það sé til farsældar fallið í réttarríki. Dómsvaldið hefur sýnt mikla ábyrgð, hraðað málum sem hafa haft lykiláhrif vegna hrunsins og sett þau í forgang og er vert að þakka það.

Varðandi þetta ferli að öðru leyti skiptir auðvitað máli að allir hvatar séu réttir. Það skiptir máli að Fjármálaeftirlitið hafi tæki til að flýta fyrir skuldaúrvinnslunni. Árangurinn sem við sjáum af þeim aðgerðum sem við höfum gripið til á síðustu missirum er ágætur miðað við aðstæður. Við vissum alltaf að skuldaúrvinnsla vegna svona mikils gengishruns yrði mjög tímafrek og frekar flókin. Það er herkostnaðurinn við íslensku krónuna. Þetta er óskaplega erfitt og tímafrekt verkefni og óhjákvæmilegt. Ég held að starfsfólk bankanna geri sér í auknum mæli grein fyrir þessu. Ég finn líka fyrir vaxandi skilningi í stjórnum bankanna. Við skulum vona að við náum (Forseti hringir.) að finna þessum málum ágætan farveg við núverandi aðstæður en það er mjög mikilvægt að eignarhaldið skýrist sem allra fyrst.