139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:32]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég kvartaði yfir því að ekki hefði verið gripið til þess ráðs að koma hér á útgönguskatti átti ég við í nóvember 2008 og fram til þessa dags og síðan þar til við afléttum þessum gjaldeyrishöftum, og losað okkur frá aflandskrónuvandanum.

Ég vil bara ítreka áhyggjur mínar af því að við séum að reyna að leysa aflandskrónuvandann með því að búa til annan vanda sem er ófullnægjandi raunávöxtun lífeyrissjóðanna sem ríkið þarf á einhvern hátt að koma til móts við með brunaútsölu á hlut sínum í orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun.

Herra forseti. Ég kom upp til að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að því hvenær hann geri ráð fyrir að samkomulaginu við AGS verði lokið. Mér er kunnugt um að því eigi að ljúka í lok ágúst og það var reyndar þannig í hv. efnahags- og skattanefnd að við miðuðum lok gjaldeyrishaftanna við lok samningsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en nú hefur seðlabankastjóri gefið því undir fótinn að samningurinn við AGS muni verða framlengdur. Ég vil því gjarnan fá að vita hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst fyrir um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.