139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er annað atriði sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í. Vakin er athygli á því í frétt í viðskiptablaði Morgunblaðsins í morgun að hugtakið aflandskróna hafi enga merkingu í íslenskum gildandi lögum og skilgreiningin á því hugtaki komi hvergi fram í gildandi rétti.

Ég hef verið að blaða í þessu frumvarpi og ég fæ ekki séð að hugtakið aflandskróna eða aflandskrónur séu skilgreindar þar og ef það er misskilningur bið ég hæstv. ráðherra um að benda mér á hvar þá skilgreiningu er að finna. En ef hún er ekki til staðar í frumvarpinu vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna ekki er gerð atlaga að því að skilgreina það hugtak. Ég hefði talið að það væri afar mikilvægt í ljósi þess hversu stóra rullu þessar aflandskrónur spila varðandi fjármagnsflutninga á milli landa og þeirra viðskipta sem menn eiga eða eiga ekki á Íslandi af þeim ástæðum að gjaldeyrishöftin setja takmörk með viðskiptum með aflandskrónur. Hefði ekki verið skynsamlegra að reyna að skilgreina þetta hugtak í lögum um gjaldeyrismál úr því að þá skilgreiningu er ekki að finna samkvæmt núgildandi lögum?