139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fríverslunarsamningur EFTA og Úkraínu og landbúnaðarsamningur Íslands og Úkraínu.

685. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er síðasti biti í háls, ef svo má segja, það er sem sagt fimmti fríverslunarsamningurinn sem við fjöllum um í dag, fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu og síðan landbúnaðarsamningur milli Íslands og Úkraínu. Þessir samningar voru undirritaðir í Reykjavík 24. júní 2010.

Þetta eru fríverslunarsamingar af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga.

Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Úkraínu er viðbótarsamningur. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn, en í tilviki Úkraínu veitist Íslandi niðurfelling tolla af lifandi hrossum og tollar á lambakjöti og á vatni falla niður í skrefum.

Vöruútflutningur til Úkraínu er nokkur. Á síðasta ári nam útflutningur til Úkraínu 2,2 milljörðum kr., svo til eingöngu sjávarafurðir. Með fríverslunarsamningnum fella EFTA-ríkin niður tolla af iðnaðarvörum og sjávarafurðum frá og með gildistöku samningsins. Af hálfu Úkraínu falla niður tollar af öllum sjávarafurðum, með örfáum undantekningum, frá 1. janúar 2012. Meðal þeirra undantekninga er heil síld og söltuð síld, sem ber áfram 5% toll.

Fríverslunar- og landbúnaðarsamningarnir eru mikilvægir til að bæta aðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjunum, þar á meðal íslenskra fyrirtækja, að mörkuðum í Úkraínu. Með samningunum verður dregið úr viðskiptahindrunum eða þær afnumdar og því mun samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja batna í Úkraínu.

Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt.

Björgvin G. Sigurðsson og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Jón Gunnarsson, Valgerður Bjarnadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.