139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

virðisaukaskattur.

451. mál
[15:11]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Þetta frumvarp varðar einkum vefbækur og rafbækur, bækur sem seldar eru á geisladiskum og landakort. Efni þess er það að við flutningsmenn ætlumst til að þessir gripir færist í neðra þrep virðisaukaskattsins, 7%, í stað þess að vera í efra þrepi sem nú er um 25%. Þetta frumvarp hefur áður verið flutt á þingi og komst þá til nefndar og fékk þar ágætar umsagnir og góða afgreiðslu. Þá flutti það auk mín hv. þm. Helgi Hjörvar, en síðan hefur fjölgað verulega í hópnum. Nú eru að auki hv. þingmenn Margrét Tryggvadóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Eygló Harðardóttir, Pétur H. Blöndal, Þráinn Bertelsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, samtals átta þingmenn úr öllum þingflokkum sem eiga sæti á þinginu.

Vefbók er, ef menn þekkja ekki til, bókartexti sem lesendur kaupa sér aðgang að á vefnum eða hlaða niður af öðru vefsetri inn á tölvuna sína, en rafbók er aftur bókartexti sem lesendur hlaða inn í venjulegar tölvur, síma eða sérstakar lestölvur, sem er hentugast, sem eru sérstök tæki svipuð tónhlöðunni eða ipad-inum og gefa kost á að lesa bókina á skjá með ákaflega þægilegu móti. Við þekkjum þegar á íslenskum markaði geisladisksbækur og vefbækur, einkum orðabækur og handbækur og kennslugögn, en við þekkjum ekki vel rafbækurnar þótt notkun þeirra aukist mjög utan landamæranna. Þó mætti halda því fram að fyrsta rafbókin hefði verið gefin út fyrir tíu árum hjá bókaforlaginu Eddu sem þá var til og landskunnur maður, Stefán Jón Hafstein, stóð að þeirri útgáfu. Nýlega hefur komið út skáldsagan Zen og listin að viðhalda vélhjólum, útlend skáldsaga í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. Sérstaklega má minnast á að í janúar á þessu ári hófst rekstur eða starfsemi vefsetursins lestu.is, með því að Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði það setur, en þar geta áskrifendur fengið aðgang að rafbókum og hlaðið þeim niður í lestölvur ef þeir eiga þær.

Við erum á þröskuldi nýrra tíma í þessu og vitum auðvitað ekki enn þá hvað gerist. Sumir ætla eins og alltaf þegar ný tækni kemur á þessu sviði að hún slái út allt það sem áður var. Með þeim hætti hefur hin prentaða bók frá tíma Gutenbergs verið slegin niður nokkrum sinnum en alltaf risið upp aftur og er enn til og líður hreint ágætlega. Hinir nýju miðlar bætast við en taka yfirleitt ekki við af þeim sem fyrir eru, en helga sér oft sérstök svið, annaðhvort efnisleg eða tæknileg, eins og við vitum. Mig grunar að rafbækurnar og vefbækurnar verði nytsamastar sem handbækur við uppflettingu, sérstaklega í menntakerfinu og skólakerfinu, en kannski verða af þeim minni not fyrir venjulegar bækur, bókmenntir eða annað, en þó veit maður aldrei.

Það er merkilegt að við höfum fengið skýrslu um þessa hluti, eða part af þeim a.m.k., sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið 2010 í fyrra sumsé og fjallar um kosti og galla e-bókavæðingar í íslenska skólakerfinu. Skýrsluhöfundarnir segja þar í lokaorðum að ef ekkert verði gert af hálfu stjórnvalda til að auka hlut stafræns námsefnis í skólum sé, með leyfi forseta:

„… ljóst að Ísland verður eftirbátur á sviði nýtækni í námsefnisgerð og námsefnisdreifingu.“

Í lykilniðurstöðum sínum í upphafi skýrslunnar segja þeir m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Við getum valið hvar í þróuninni við viljum vera;“ — þ.e. í þeirri þróun að rafbækur eru óðum að dreifast um heiminn — „fremst, í miðjunni og við getum valið að reka lestina“ — segja höfundarnir. Þeir halda áfram: „Með því að skipa okkur í hóp frumherja nýtum við kosti framþróunarinnar fyrr. Það er ljóst að allar lausnir þarf að laga að íslenskum aðstæðum. Íslenskar lausnir þurfa að reiða sig á íslenskt hugvit. Kostnaður við breytingar er inntur af hendi í íslenskum krónum en sparnaðurinn í gjaldeyri. Þess vegna höfum við allt að vinna við að skipa okkur í hóp brautryðjenda.“

Svo mörg voru þau orð í ágætri og fróðlegri skýrslu um hugsanlega e-bókavæðingu í íslenska skólakerfinu þar sem einkum rafbækur munu taka við af pappírsbókum og nemendur ganga fyrst og fremst um með lestölvuna sína en ekki fulla skólatösku af bókum.

Um breytingarnar sem í þessu frumvarpi felast eiga að öðru leyti við öll sömu rök og um lægri virðisaukaskatt af sölu prentaðra bóka, hljóðbóka og hljómdiska, bæði menningarleg rök og rök af sanngirnistoga og samkeppnistoga um staðkvæmdarvörur. Í frumvarpinu er m.a. lagt til, þótt það sé ekki spurning um rafbækur eða vefbækur, að jöfnuð verði staða landakorta sem falla undir einn tollflokk ef þau eru kort en annan ef þau eru bækur. Það sama á auðvitað að gilda um bækur hvort sem þær eru í pappír eða á tölvuskjá.

Um tekjutap ríkissjóðs af þessum breytingum er hægt að halda langar ræður og hafa uppi ýmsa spádóma. Flutningsmenn telja að það verði lítið og vinnist strax upp með aukinni sölu bóka og korta af öllu tagi.

Eins og ég sagði áðan var þetta frumvarp flutt áður, reyndar á tveimur þingum. Á síðara þinginu sem það var flutt hlaut frumvarpið bæði umræðu og umsagnir í efnahags- og skattanefnd. Flestar umsagnirnar voru afar jákvæðar og komu m.a. frá forsvarsmönnum Forlagsins, Hagþenkis, Íslenskrar málnefndar, Landsbókasafnsins, Neytendasamtakanna, Rithöfundasambandsins, Skólavefjarins, Tónastöðvarinnar og frá Einari Erni Benediktssyni, tónlistar- og athafnamanni og nú varaborgarfulltrúa. Í nokkrum af þessum umsögnum komu fram ágætar ábendingar um fleira menningarefni sem vert væri að hafa í lægri virðisaukaskattsflokki, svo sem nótnabækur og tónlist til stafræns niðurhals. Það er sjálfsagt að skoða. Í umsögn ríkisskattstjóra voru ýmsar tæknilegar athugasemdir um álitamál sem umsegjandi taldi rétt að könnuð yrðu nánar. Nefndin afgreiddi það mál ekki frá sér en ræddi efni þess. Í nefndaráliti um frumvarp til laga um ráðstafanir í skattamálum á þskj. 525, það mun hafa verið á 136. löggjafarþingi, tekur meiri hluti hennar fram, með leyfi forseta:

„… að á fundum nefndarinnar hafi komið fram sá skilningur fjármálaráðuneytis og skattyfirvalda að endurskoða þurfi verklag við álagningu virðisaukaskatts á sölu vef- og rafbóka, hljóðbóka, nótnabóka, landabréfa og þess háttar.“

Þetta töldu áhugamenn um málið nokkurn sigur þótt frumvarpið yrði ekki samþykkt því að í hinu háa fjármálaráðuneyti væri farin í gang vinna. Fyrr á því þingi sem nú er háð var fjármálaráðherra spurður hvað þessari endurskoðun liði með 175. máli og svaraði því til að eftir að hafa yfirfarið verklagið væri það mat hans og hans manna í ráðuneytinu að ekki stæðu sterk rök til að gera þar breytingar á að svo komnu máli, þó væri aldrei neitt endanlegt eða óumbreytanlegt í þeim efnum. Með þessu svari kom í ljós að framkvæmdarvaldið ætlar ekki að bregðast við skorinorðri ábendingu í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar um að endurskoða þessa hluti og því hlutum við að leggja málið fyrir löggjafarsamkomuna að nýju til rannsóknar og umræðu.

Við flytjum frumvarpið óbreytt frá fyrra formi þótt ástæða væri til að taka tillit til ábendinga sem bárust í umsögnum og bendum nefndinni sem við þessu tekur ef allt gengur vel á að athuga þær ábendingar.

Það verður að taka fram að þetta frumvarp tengist beint þingsályktunartillögu sem sömu flutningsmenn leggja fram, um að lestölvurnar verði settar í annan tollflokk en nú er. Þær eru nefnilega í tollflokki sem hefur tiltekið númer og á aðallega við heimilistæki, en ekki í sama tollflokki og tölvur. Það þýðir að þessir gripir bera 25% vörugjöld auk 7,5% tolls, alveg öfugt við tölvurnar. Þá er rétt að rifja upp að á sínum tíma, í upphafi tölvualdar, brugðust yfirvöld við, þ.e. fjármálaráðuneytið undir stjórn Ragnars Arnalds sem þá var ráðherra, og bjuggu til hvata til tölvuvæðingar á Íslandi með því að fella niður söluskatt af tölvum í tiltekinn tíma. Það er fordæmið sem við bendum á.

Vissulega er það rétt og á við um bæði virðisaukaskattinn og tollana að erlend fordæmi eru ekki sem æskilegust. Þá verður líka að taka fram að innan Evrópusambandsins er mikil umræða um að gera hlut rafbókanna og lestölvunnar veglegri en nú er. Við gætum tekið af skarið og tekið forustu í þessum efnum og önnur ríki mundu væntanlega renna í okkar far. Það væri hægt að taka upp þá skipan að breyta tollskrárnúmeri þessara gripa, en skipta svo um aftur þegar útbreiðsla þeirra verður orðin almenn eins og menn vildu gera samkvæmt því fordæmi sem Ragnar Arnalds stóð fyrir á sínum tíma sællar minningar.

Síðast þegar ég ræddi þetta var ég með eintak af lestölvu. Það fannst mér nett og tiltölulega þægilegt. Nú er ég kominn með nýjan grip sem er einfaldur og örþunnur. Í þessum grip eru 18 síður, 10 bækur á hverri síðu, þar á meðal Moby Dick á ensku og Stríð og friður eftir Tolstoj, á ensku líka. Hér er Ríkharður III. , leikrit Shakespeares, á þýsku. Leikrit hans mundu öll komast fyrir í einu horninu á kubbum sem hér eru. Hér er á frönsku bókin um ferðina að iðrum jarðar sem Jules Verne skrifaði um. Hér er líka af einhverri tilviljun eitt af nýjustu heftum Tímarits Máls og menningar , sem ég veit ekki alveg af hverju á hér heima og af hverju er hér en því hefur verið hlaðið niður. Svona er þetta. Allur þessi bókakostur kemst hér fyrir sem að öðru jöfnu mundi vera í bókaskáp sem væri nokkurn veginn jafnumfangsmikill og þetta ræðupúlt. Það er algjörlega augljóst hvaða nytsemd mundi verða af þessu í menntakerfinu. Það er verið að leggja niður bókasöfn á sjúkrahúsunum. Við getum ímyndað okkur hvað gæti komið þar í staðinn því að þetta má einmitt lesa í rúmi sem ekki er hægt að gera við allar hinar stóru bækur. Þessi litli hlutur býður upp á gríðarlega möguleika.

Við eigum að vera í fararbroddi í tækni af þessu tagi. Fyrir því eru samkeppnisleg rök en ekki síður menningarleg. Við getum lent í því að Íslendingar kynni sér þessa tækni með því að kaupa lestölvurnar í útlöndum og venji sig á að lesa bækur á ensku og þar með fjarlægjumst við í menningarlegum efnum enn meira hinn íslenska kjarna en orðið er. Þróunin gæti þess vegna haldið áfram þangað til í óefni er komið. Það eigum við ekki að gera, heldur eigum við að taka hér ákveðna forustu og notfæra okkur tæknina og taka hana í okkar þjónustu. Það flytur auðvitað enginn inn lestölvur með þeim vörugjöldum og tollum sem nú eru á þeim og þess vegna selur enginn rafbækur. Lestölvuvæðingin er því hæg. Hagur íslenskrar tungu og íslenskar menningar er sumsé að veði.

Að lokum, forseti, eins og ég sagði áðan gætu þessar tölvur og þessir gripir, rafbækurnar og lestölvurnar, nýst á marga vegu. Það er skemmtilegt að segja frá því að frumrannsóknir benda til þess að þær geti nýst mjög vel fólki sem á erfitt með lestur, lesblindum og þeim sem hreinlega sjá illa, m.a. vegna þess að í þeim er hægt að stækka og minnka letur eins og hver maður vill og hafa lítið á skjánum eða mikið. Ég hef í höndum umsögn frá Guðbjörgu Emilsdóttur, sérkennara í lestri, sem prófaði tækið í nokkrar vikur á þremur unglingsdrengjum sem eiga það sameiginlegt að vera lesblindir og með athyglina á flökti. Hún segir að það hafi tekist einkar vel. Þeim hafi fundist gaman að eiga við tækið, annað en bók sem væri fyrir fram leiðinleg eins og þeir voru búnir að venjast. Þeim fannst gott að hafa gráan skjá en það er umfram venjulegu tölvurnar vegna þess að útbúnaðurinn bak við skjáinn er sérstaklega ætlaður lestri sem venjulegar tölvur eru ekki endilega, enda þreytist maður fljótt á að lesa langan texta í þeim. Sem fyrr segir er hægt að stækka letrið sem er mikill kostur. Með því verður lítið á hverri síðu og þar með verður þetta ekki eins yfirþyrmandi og ógnvekjandi fyrir lesblinda eða þá sem eiga erfitt með lestur og bókin. Niðurstaða Guðbjargar var sú að hún mælir með svona tækjum fyrir þá sem eiga erfitt með að lesa.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra að sinni, en treysti því að nefndin taki málinu vel og afgreiði það frá sér ásamt þeirri þingsályktunartillögu um gjöld á lestölvum sem væntanlega fylgir í næstu viku eða á næstu vikum.