139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:03]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hefur sem betur fer margt breyst í samfélagi okkar eftir hrunið. Eitt af því sem hefur breyst er að við sættum okkur ekki lengur við að mál liggi í þagnargildi, sættum okkur ekki við að leynd ríki um þá hluti sem áður þótti sjálfsagt, eða að minnsta kosti í einhverjum hópum við hæfi, að ekki færu út til almennings, þess sem átti að taka við og sætta sig við að aðrir réðu yfir sér.

Það hefur líka gerst, og það er eðlilegt þó að það sé kannski ekki skemmtilegt, að upp hafa komið svona sérkennilegar hreyfingar og einstaklingar sem ganga undir þessum merkjum sem ég nefndi áðan en gera það til þess að veita útrás skapbrestum eða álagi á sinnið, eða heitast við einstaklinga, jafnvel níðast á fjölskyldum þeirra sem þeim er af einhverjum ástæðum í nöp við. Við höfum um þetta dæmi, bæði gömul — þá er ég að tala um þessi tvö og hálft ár sem liðin eru — og alveg nýleg. Nýverið var kastað grjóti í glugga hjá ráðherra, starfsbróður okkar, manni sem er vel þekktur og vel látinn um allt land, þó að menn geti ýmist verið sammála honum eða ósammála í einstökum pólitískum efnum.

Mér sýnist í stuttu máli, forseti, að hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson séu með þessu þingmáli að skipa sér í þennan seinni hóp fólks sem hefur uppi viðbrögð eftir hrunið. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, sem í gær setti upp þrefaldan geislabaug og hélt siðapredikun fyrir aðra þingmenn og þjóðina alla um æskileg samskipti þingmanna, um þau orð sem menn ættu að velja hver öðrum, hefur nú tekið ofan geislabauginn og kemur hér eins og hver annar götustrákur, hvur annar grjótkastandi Heimdellingur, að hvetja til þess að einstakir þingmenn hér í salnum séu dregnir fyrir einhvers konar rannsóknarnefnd á grundvelli sögusagna, á grundvelli orðróms sem ég veit ekkert um en sýnist að mestu leyti vera tilbúningur. Þingmaðurinn ber hér fram, að formi til í fullri alvöru, mál sem fjallar um það að þingið eigi að kjósa sérstaka rannsóknarnefnd og setja sérstök lög — forseti, sérstök lög sem eiga að fylgja í kjölfarið — til að rannsaka einhverja þá atburði sem þingmaðurinn þorir ekki að nefna, sem hann hefur upp úr heimildum sem ekki virðast liggja fyrir. Og þingmaðurinn vill ekki láta svo lítið að segja þinginu, sem á að samþykkja tillögu hans, í hverju þær heimildir felast. Hann þorir ekki að nefna nöfn heldur setur hornklofa inn í beina tilvitnun og sleppir þar nöfnum og setur þar stafina A og B, virðist ekki þora að nefna þau nöfn sem hér eiga við og virðast vera í þeirri heimild sem hann er þó að nota.

Þingmaðurinn ætlast í alvöru til þess að Alþingi Íslendinga samþykki eftir honum, og þeim tveimur öðrum sem hann hefur haft í félagi með sér, rannsókn sem á að enda í málshöfðun á grundvelli tveggja saka. Þær sakir eru annars vegar það sem vitnað er í í grein í Morgunblaðinu, að þingmaður, sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson þorir ekki að tiltaka hver sé, hafi staðið úti í glugga og talað í síma og sent kveðju, þannig að vitnað sé í greinargerðina, með leyfi forseta, „með því að kreppa hnefann út í fjöldann“. Hér er greinilega leitt fram vitni og það er svo áreiðanlegt að því er lýst, að vísu í viðtengingarhætti, að þetta hafi gerst. Ég spyr: Hver er sökin? Hvernig í ósköpunum ætlast þingmaðurinn og hinir tveir til þess að Alþingi Íslendinga geri það sem hann vill, að við setjum á stofn sérstaka rannsóknarnefnd til að athuga hvort þingmaður hafi kreppt hnefann hér úti í glugga og talað í síma?

Forseti. Þetta er því miður ekki bara fáránlegt. Þetta lýsir einhverri þeirri pólitík sem ég get ekki verið sáttur við á Alþingi.

Hin sökin er svo upp úr heimild sem þingmaðurinn hefur ekki lagt fram og þorir ekki að hafa eftir í sínu fulla formi. Haft er eftir A, það er sem sé nafnlaust vitni sem virðist hafa upplifað það, að einhver alþingismaður, sem nefndur er B, hann er líka látinn vera nafnlaus, hafi verið í sambandi við fólk utan hússins og virst vera að veita því upplýsingar um viðbúnað lögreglu. Úr því hv. þingmaður þorir ekki að nefna nafnið A og ekki heldur nafnið B — þorir ekki að kalla fram þetta vitni sem mér virðist á greinargerðinni að hljóti að vera alþingismaður sem enn situr, eða hvað? — þá er þessi sök ekki bara fáránleg heldur líka hlægileg og ber þessum þremur flutningsmönnum ekki fagurt vitni.

Forseti. Vel má vera að ég tali hér síðar um þá hluti sem enn fremur þarf að tala um, meðal annars þá ályktun sem flutningsmennirnir þrír draga saman úr þessum tvenns konar vitnisburði, að þingmenn og ráðherrar hafi gerst brotlegir við lög, það er það sem á að rannsaka og að refsa eigi þeim með þeim hætti sem eðlilegur þykir. En í bili læt ég mér nægja að lýsa þeirri skoðun minni að þetta mál eigi að fella og lýsi einnig þeirri skoðun minni að þetta mál eigi ekki að ganga til nefndar og síðari umræðu, heldur eigi þingmenn hér með að hafna því.