139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:24]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég nefndi það áðan í upphafi ræðu minnar að það er forgangsmál Framsóknarflokksins að ræða þetta mál í dag, það hlýtur að vera. Hv. þingflokkur Framsóknarflokksins gat valið hvaða mál sem hann vildi til að ræða hér í dag. Framsóknarmenn hafa án efa haft úr nægilega mörgum málum að moða, auðvitað merkilegum öllum saman upp úr og niður úr, en þau völdu þetta hér. Hvers vegna velja þau það? Hvers vegna í ósköpunum er þetta mál orðið að forgangsmáli Framsóknarflokksins í dag? Það segir ekkert um númer á þingskjölum, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, heldur hvaða mál er í forgangi. Og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kemst ekkert undan því að gangast við því að þetta sé forgangsmál flokksins, þetta sé það mál sem þingflokkurinn hefur sest yfir. Hann hefur skoðað málalistann sem hann hefur verið með á dagskránni og pikkað þetta mál út, að sjálfsögðu í kjölfar þeirrar umræðu sem var hér í gær um samskipti þingmanna. Það mátti heyra á mæli hans þegar hann flutti málið áðan að það var auðvitað sá hugur í honum að leita áfram sátta á þingi, menn skyldu vera ljúfir hver við annan, tala hreint út, fara ekki í manninn heldur í málefnin að sjálfsögðu og gæta að orðspori Alþingis. Hann var nú meira en til í það, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, að leggja lóð sitt á þær vogarskálar, enda lagði hann það til að forustumenn flokkanna ásamt forseta þingsins legðu sig fram um að svo gæti orðið. Þetta er framlag Framsóknarflokksins í þeirri umræðu eins og margoft hefur verið nefnt. Ég bíð spenntur eftir næstu málum frá Framsóknarflokknum, í hvaða átt þau verða. Ef þetta er forgangsmálið, hver koma þá næst þar á eftir?