139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er sannarlega nokkuð kátleg mynd sem hér dregst upp af Framsóknarflokknum og hv. formanni þingflokks hans. Flokkarnir höfðu tækifæri til að koma að þeim málum sem kölluð eru þingmannamál. Sjálfstæðisflokkurinn sendi hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson til að tala um lækkun húshitunarkostnaðar, mál sem hann hefur lengi haft áhyggjur af eins og aðrir, ágætt mál. Samfylkingin tók lægsta númerið sem reyndist vera virðisaukaskattsmál mitt, menningarmál og samkeppnismál. (Gripið fram í.) Hv. þm. Þór Saari, fyrir hönd Hreyfingarinnar, ætlaði að tala á eftir um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda um upplýsingaskyldu þeirra, gagnsæi stendur þar í sviga og er mjög í stíl bæði við málflutning Hreyfingarinnar og þau mál sem hæst ber á okkar tímum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hugar að meðferð einkamála með frumvarpi frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, formanni viðskiptanefndar. En þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hins gamla flokks Jónasar frá Hriflu, Eysteins Jónssonar og Steingríms Hermannssonar, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, valdi sér málið Rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009, mál sem maður gæti kannski horft í gegnum fingur sér við flutningsmenn þess af því að það hafi verið sett saman í einhverjum tilfinningablæstri fyrir svo sem eins og hálfu ári, en það var það mál sem hann valdi daginn eftir að hann gerðist mannkynsfrelsari á Alþingi Íslendinga. Það var það mál sem honum þótti við hæfi að flytja þingi og þjóð (Forseti hringir.) eftir þessa nýorðnu umbreytingu á sjálfum sér.