139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:28]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Fyrir sléttu ári lagði ég fram þingsályktunartillögu á Alþingi sem sneri í grunninn að því að máli sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson flutti hér, þ.e. að búsáhaldabyltingunni, þ.e. að Alþingi drægi til baka ósk sína um að fólk yrði ákært á grundvelli tiltekinna lagagreina. Það komu hörð viðbrögð við þeirri þingsályktunartillögu. Hún var rétt komin úr prentaranum og búið að stilla henni upp í rekka þegar hv. formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, kom í ræðustól, flutti talsverða ræðu á innsoginu og sagði þá m.a., með leyfi forseta:

„Í hliðarherbergi liggur frammi tillaga til þingsályktunar sem nú er búið að dreifa á þinginu um ákæru á hendur níu mótmælendum fyrir árás á Alþingi. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun minni við hæstv. forseta þingsins að þetta mál er ekki þingtækt.“

Síðan kom hver af öðrum úr forustusveitum stjórnarandstöðuflokkanna sömu skoðunar, þingmenn Framsóknarflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í allnokkur skipti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, hv. þm. Jón Gunnarsson komu a.m.k. tvisvar í ræðustól og sögðu: Hér er mál sem er ekki þingtækt, það má ekki ræða þetta. Það mátti ekki ræða þetta mál sem þó var búið að ákæra í. Það var búið að draga fólk inn í þingsali til að dæma það og ekki fyrir neinar smásakir; fyrir nánast að fella lýðræðið, fyrir nánast að setja landið á hvolf, sökkva því. Alþingi var í hættu að þeirra mati.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort það hafi komið til umræðu í þingflokki Framsóknarflokksins, rétt eins og það kom til umræðu á vordögum 2010, hvort hér sé hreinlega um (Forseti hringir.) þingtækt mál að ræða? Ekki ætla ég að halda því fram að mál af þessu tagi séu ekki þingtæk. En ég velti því fyrir mér hvort þetta mál hafi verið rætt á sömu nótum og það (Forseti hringir.) sem ég nefndi áðan, í þessari klíku.