139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:41]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég get tekið undir sumt af því sem fram kom í ræðu þingmannsins sem laut að dugleysi ríkisstjórnarinnar sem sat á þeim tíma. Það var öllum ljóst að hún sat of lengi. Það var ekki tekið á málum með réttum hætti og á endanum hrökklaðist hún frá völdum. Hv. þingmaður lýsti því þannig að það hefði m.a. verið vegna þeirra miklu mótmæla sem voru hér úti og líklega fyrst og fremst vegna þeirra og get ég að miklu leyti tekið undir það. En mig langar til að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur verið mótmælt mjög kröftuglega, þar á meðal 1. október sl., kannski ekki jafnkröftuglega og ríkisstjórninni sem hrökklaðist hér frá völdum: Má ekki með sömu rökum segja að núverandi ríkisstjórn hljóti að þurfa að víkja vegna þeirra mótmæla sem þá voru uppi?

Hv. þingmaður nefndi að mótmælendur og lögregla hefðu yfirleitt verið til sóma með nokkrum undantekningum þó. Mig langar að biðja hv. þingmann að segja mér í hvaða tilfellum mótmælendur og lögregla voru ekki til sóma. Ég er alveg sáttur við að fara upp í seinna andsvari og fá svar við spurningunum þar ef tíminn er ekki nægur. Ég held að það sé mikilvægt að við leggjum að jöfnu eða stöndum hér jafnfætis þegar við erum krafin svara. Ég held að hv. þingmaður hljóti að geta nefnt dæmi um hvenær mótmælendur og lögregla fóru út fyrir það sem getur talist til sóma, og einnig af hverju annað eigi að gilda um núverandi ríkisstjórn þegar henni er mótmælt kröftuglega, með eggjakasti meðal annars, en um þá ólukkans ríkisstjórn sem hér hrökklaðist frá völdum.