139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[16:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur greinilega við kaunin á einhverjum þingmönnum hér þegar þessi mál eru rædd, slík eru viðbrögðin við þessari þingsályktunartillögu sem ég get ekki séð annað en sé bara mjög eðlileg og alls ekki óeðlilegt að þau ummæli sem fallið hafa á opinberum vettvangi í kjölfar þeirra mótmæla sem voru hér og þeirra atburða sem gerðust í þinghúsinu í tengslum við það séu skoðuð.

Við skulum átta okkur á því hvað liggur hér til grundvallar. Hér er m.a. verið að vitna í greinar eftir lögreglumenn í blöðum, lögreglumenn sem tóku þátt í aðgerðum í þinghúsinu og fyrir utan Alþingishúsið, og það er verið að vitna í viðbrögð ýmissa þingmanna og hvað þeir höfðu fyrir stafni hér á meðan á þessu stóð og þegar þetta stóð sem hæst.

Í viðtali við formann Landssambands lögreglumanna lýsir hann m.a. háttsemi ákveðins þingmanns með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Í stað þess að fylgja tilmælum til að þingmanna og starfsfólks Alþingis um að halda sig frá gluggum hússins hafi hún staðið úti við glugga og talað í síma og sent kveðju með því að kreppa hnefann út í fjöldann.“

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sá tilefni til þess að rita forseta þingsins bréf og óska eftir að þetta mál yrði skoðað og spyr að því hver sé í raun ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem í hlut eiga og hvernig Alþingi ætli sér að afgreiða það mál. Það er ekki fyrr en eftir ítrekaða beiðni frá Landssambandi lögreglumanna sem þessu erindi er svarað.

Það er vitnað hér í fundargerð forsætisnefndar þar sem kemur fram hjá þeim sem þar sátu að menn hafi orðið vitni að hátterni þingmanna sem voru til þess að hvetja hér til aukinna mótmæla. (Gripið fram í.) Þetta stendur allt saman skrifað og ítrekað hefur verið á þetta minnst bæði í ræðum á þingi, í greinaskrifum í blöðum og fréttaflutningi í fjölmiðlum. Þetta hefur verið rætt meðal þingmanna, starfsmanna þingsins og lögreglumanna.

Mér finnst það vera eins og að kasta steini úr glerhúsi þegar hv. þingmenn stjórnarflokkanna koma hér upp til að gera athugasemdir við hvaða mál eru tekin á dagskrá. Það þarf ekki að fara langt aftur í málalistann á þingi til að sjá að ekki eru alltaf valin af hálfu núverandi ríkisstjórnar eða meirihlutaflokkanna merkileg mál til að fjalla um á þinginu og oft höfum við gert athugasemdir við það að tímanum sé ekki vel varið hér í umræðu um ýmis mál.

Hér hefur verið kallað eftir gagnsæi og opnu ferli, það eigi að upplýsa allt. Þar hafa þingmenn ríkisstjórnarflokkanna gengið fremst í því að kalla eftir slíkum vinnubrögðum. Hafa þeir ekki kallað eftir því að m.a. aðdragandi Íraksstríðsins verði rannsakaður alveg sérstaklega og þátttaka manna í því? Það á að rannsaka hér ýmsa hluti en það á að láta vera þegar kemur að einhverjum rannsóknum sem mögulega geta snúið að þeim sjálfum. Þannig hafa þau t.d. hafnað tillögum um að aðdragandi Icesave-málsins, þ.e. að þeim samningum og þeirri vinnu sem unnin var við Icesave-málið, verði rannsakaður sérstaklega. Það má ekki. Það er bara sumt sem má rannsaka hjá þessum hv. þingmönnum, virðulegi forseti.

Þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason nefnir það sérstaklega að það sé aumingjaskapur og kjarkleysi af hálfu flutningsmanns þessarar tilllögu, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, að nefna ekki nöfn þeirra sem hér eiga í hlut og fara með málflutninginn að vissu leyti inn í sali Alþingis þá frábið ég mér slík vinnubrögð. Er það ekki þannig að menn eru saklausir þar til sekt er sönnuð? Er það bara ekki eðlilegt tillit við þá sem hér eiga hlut að máli að vera ekki að draga fram einstaklinga fyrir rannsókn málsins? (Gripið fram í.) Er það ekki bara eðlilegt að menn haldi því til hlés á meðan rannsóknin fer fram? Hún skilar síðan sinni niðurstöðu.

Væri það ekki í þágu þeirra sem taka þetta til sín og hafa verið nefndir í þessari umræðu að þetta sé rannsakað þannig að fólk verði þá þvegið af þeim áburði sem boðað er til? Ég get ekki séð annað en að þetta sé í hæsta máta eðlileg málsmeðferð af hálfu þeirra hv. þingmanna sem flytja þessa þingsályktunartillögu.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði í ræðu sinni að það hefði verið lítið ofbeldi í þeim mótmælum sem hér fóru fram, lítið ofbeldi sem betur fer, eins og það var orðað. Það er hennar mat að það hafi verið lítið ofbeldi í gangi. Mitt mat er að það hafi verið mikið ofbeldi í gangi, mjög mikið ofbeldi. Ég var hér á þingi og ég varð vitni að þessu. Það var það mikið ofbeldi að hér lágu eftir slasaðir lögreglumenn (Gripið fram í.) og það hlýtur að teljast mikið ofbeldi þegar fólk slasast í átökum eða ég veit ekki hvar mörkin liggja í þessu.

Þeir sem hlut eiga að máli og allir í hverju sem er verða auðvitað að kannast við sín verk. Það segir enginn í þessari þingsályktunartillögu að það hafi verið þingmenn Vinstri grænna eins og hér var orðað af hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og hún sagðist ekki sitja undir að vera sökuð um að hafa skipulagt og stjórnað þessum mótmælum. En það er verið að vísa til þess að þingmenn hafi hér m.a. hvatt til ákveðinna mótmæla. (BirgJ: Hvað ertu að tala um?) (Gripið fram í: Hvaða mótmæla, hvað ertu að tala um?) Hafi verið að hvetja til þeirra mótmæla sem voru hér við Alþingishúsið. [Frammíköll í þingsal.] Og þessi ummæli, að reyna að draga inn í ummæli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar í gær um hvernig við ættum að haga okkur hér í umræðum er þessu máli algjörlega óskylt. Það voru bara orð í tíma töluð sem við ættum öll að taka til okkar, að reyna að auka virðingu þingsins. Þetta er hluti af því, að kryfja þetta mál til mergjar og hafa þetta mál ekki hangandi yfir okkur ósvarað.

Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins nýtur Alþingi Íslendinga friðhelgi og að ráðast á Alþingi Íslendinga er brot á stjórnarskrá landsins og þetta hlýtur að vera eitt af þeim grundvallaratriðum sem við byggjum lýðræði okkar á og er það. Við hljótum að eiga að fylgja því eftir.

Það er ekki um að villast, og ég held að ég hafi áður sagt það hér í ræðustól, að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir var hér, ég varð vitni að því sjálfur í þessum mótmælum að hún var hér með ákveðnum hætti í sambandi við mótmælendur fyrir utan. Aðspurð af mér, eftir að hafa látið ákveðin ummæli falla og þegar ég spurði: Ertu virkilega að meina það að þú viljir hleypa fólkinu hingað inn? þegar hún var með athugasemdir úti í glugga þar sem ég stóð við hliðina á henni, var með athugasemdir um störf lögreglunnar og ég sagði: Viltu virkilega hleypa mótmælendum inn í þetta hús? (ÁI: Hvað er þingmaðurinn að fara?) Viltu hleypa þessu fólki inn í þetta hús? (ÁI: Hvað er þingmaðurinn tala um?) (Forseti hringir.) Og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Ég bið ræðumann stoppa aðeins.)

… sagði þá: Eru þetta ekki dauðir hlutir hér inni, er það ekki alveg sama, eru þetta ekki dauðir hlutir? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Þetta eru bara sönn orð og ef þingmaðurinn vill ekki kannast við það (Gripið fram í.) hefur hún eitthvað að fela í þessu máli (Gripið fram í.) vegna þess að ég var sjálfur vitni að þessum ummælum og það þarf ekki aðra til. (Gripið fram í.) Þetta stendur skrifað og sagt og ég stend við þessi ummæli mín. (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): (Gripið fram í.) Má ég biðja um ró í þingsalnum og biðja þingmann að gefa ræðumanni sem hefur orðið tíma til að flytja sína ræðu. )

Þetta mál, virðulegi forseti, á fullt erindi til þess að vera skoðað eins og mörg önnur mál í tengslum við aðdraganda hrunsins. Það er alveg sjálfsagt að gera það til að við fáum sannleikann fram í þessu máli. Allt of margir (Forseti hringir.) ábyrgir aðilar hafa tjáð sig um málið til að hægt sé (Forseti hringir.) að horfa fram hjá því.