139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi umræða er farin að taka á sig nokkuð sérkennilega mynd að mínu mati. Ég tel fulla ástæðu til að óska eftir því að forseti Alþingis, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, verði kvödd til og verði viðstödd þessa umræðu vegna þess að hér er verið að ræða mál þar sem í greinargerðum er verið að vitna sérstaklega í fundargerðir forsætisnefndar. Hér koma hv. þingmenn og eru með að mínu mati ávirðingar og jafnvel dylgjur, hv. þm. Jón Gunnarsson, eða ég ætti kannski að segja hv. þm. Jón A. Gunnarsson, kemur með ávirðingar og dylgjur (Forseti hringir.) um nokkra þingmenn og ... (Forseti hringir.)

(Forseti (KLM): Má ég biðja hv. þingmann að ávarpa þingmann með réttum nöfnum.)

Hv. þm. Jón Gunnarsson kemur með ávirðingar í garð annarra þingmanna og sömuleiðis er sérstaklega fjallað um ummæli hæstv. forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ég tel því mikilvægt að gerðar verði ráðstafanir til þess að forseti Alþingis verði viðstödd þessa umræðu eða taki ákvörðun um að henni verði hætt.