139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki ætlast til þess undir þessum lið að fjallað sé efnislega um ræður annarra en ég get ekki annað en komið upp og svarað þeim ummælum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar þegar hann sakar mig um að vera hér með dylgjur. Ég er ekki að fara með neinar dylgjur, virðulegi forseti, það er ekkert slíkt. (Gripið fram í: … bera af þér sakir?) Ég er bara að segja frá því sem ég hef áður sagt opinberlega hverju ég varð vitni að á þessum ömurlegu dögum sem voru hér í þinginu. Ég er bara að greina frá því og ég nafngreini hér ákveðinn hv. þingmann í þeim efnum vegna þess að mér finnst það eðlilegt af því að sá hv. þingmaður viðhafði þessi ummæli við mig og það var annar hv. þingmaður sem varð vitni að því. (Gripið fram í: Hver var það?) Mér finnst ekkert að því að ég nefni það hér og segi frá því. (Forseti hringir.) Það eru engar dylgjur. Ég er að fara yfir staðreyndir máls, virðulegi forseti.