139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[17:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég nefndi það hér að hér hefðu legið eftir slasaðir lögreglumenn. Það urðu slys á lögreglumönnum, það urðu slys á þingvörðum og jafnvel þannig í einhverjum tilfellum að menn bera af því skaða til lengri tíma. Ég fór ekki með neinar dylgjur, virðulegi forseti, um hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Ég greini einfaldlega frá því sem er satt og rétt í því máli. Í því eru engar dylgjur, ég er ekki að ýja að neinu, ég er bara að segja frá því sem var sagt. Ég sagði það svo að hver og einn gæti lagt mat á það fyrir sjálfan sig. Það getur hver og einn lagt mat á það hvað felst í ummælum þegar hv. þingmanni finnst það í lagi, virðulegi forseti, og fannst það í lagi á þessum tíma að mótmælendur færu um sali Alþingis og brytu þar allt og brömluðu. Það er nákvæmlega spurningin sem ég lagði fyrir hv. þingmann. Finnst þér í lagi að hleypa þessu fólki inn í húsið og brjóta allt og bramla? Og svarið sem ég fékk var: Er það ekki í lagi? Þetta eru hvort eð er allt dauðir hlutir. Þetta eru engar dylgjur, þetta er sannleikur.