139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir. Í frumvarpinu er gerð tillaga um að á eftir 6. gr. laga nr. 97/2010 komi ný grein sem orðist svo ásamt fyrirsögn:

„Eignarnámsheimild. Vegagerðinni er heimilt að taka eignarnámi land, jarðefni og önnur réttindi sem þörf verður á vegna framkvæmda sem félög skv. 1. og 2. gr. standa að. Um málsmeðferð vegna eignarnámsákvörðunarinnar gilda þau ákvæði VII. kafla vegalaga sem varða eignarnám.“

Í öðru lagi er samkvæmt 2. gr. frumvarps þessa lagt til:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Ákvæði 7. gr. gilda um eignarnámsákvarðanir sem teknar eru eftir gildistöku laga þessara. Málsmeðferð vegna töku ákvarðana um eignarnám sem hafist hefur fyrir gildistöku laga þessara telst fullnægjandi undirbúningur að ákvörðun um eignarnám samkvæmt lögum þessum, enda uppfylli allir þættir hennar ákvæði málsmeðferðarreglna VII. kafla vegalaga, nr. 80/2007, með síðari breytingum.

3. gr. hljóðar svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í VII. kafla vegalaga er fjallað um heimildir Vegagerðarinnar til eignarnáms til þjóðvegagerðar og hvers kyns vegahalds. Ákveðin óvissa hefur ríkt um það hvort eignarnámsheimild vegalaga nái til framkvæmda sem aðrir aðilar en Vegagerðin ráðast í. Þannig hefur það sjónarmið komið fram að eignarnámsheimild laganna nái eingöngu til framkvæmda á vegum Vegagerðarinnar þegar hún stendur ein að málum en ekki þegar aðrir aðilar, svo sem samstarfsaðilar Vegagerðarinnar eða félög sem Vegagerðin fer með eignarleg eða stjórnunarleg yfirráð yfir, standa fyrir framkvæmdum.

Hinn 28. júní 2010 samþykkti Alþingi lög um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir. Í þeim lögum er ekki að finna sérstaka eignarnámsheimild. Vegagerðin hefur þegar tekið þátt í stofnun félaga sem ætlað er að ráðast í framkvæmdir samkvæmt heimild áðurnefndra laga og stendur undirbúningur að framkvæmd einstakra verkefna nú yfir. Í löggjöf um margar stórframkvæmdir sem ráðist hefur verið í á Íslandi hefur tíðkast að kveðið væri á um heimild til eignarnáms lands og tengdra réttinda. Liggja ríkir samgöngu- og byggðahagsmunir undantekningarlaust að baki því að áætlanir um slíkar framkvæmdir nái fram að ganga. Nægir í þessu samhengi að benda á eignarnámsheimild laga um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, laga um Landeyjahöfn, áðurnefnda eignarnámsheimild vegalaga og eignarnámsheimildir skipulagslaga, laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, vatnalaga og fjarskiptalaga, svo að dæmi séu nefnd.

Í ljósi þess sem fram hefur komið er hér lögð til breyting á lögum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir í þá veru að Vegagerðinni verði á skýran hátt veitt heimild til eignarnáms lands, jarðefna og annarra réttinda sem til þarf í þeim tilgangi að félög samkvæmt 1. og 2. gr. laganna geti staðið að lagningu Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi austur fyrir Ölfusárbrú að nýjum gatnamótum við núverandi Suðurlandsveg, lagningu Vesturlandsvegar frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum, lokið við Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Víknavegi, ásamt nauðsynlegum undirbúningi, og staðið að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði ásamt vegalagningu að þeim auk annars nauðsynlegs undirbúnings. Gert er ráð fyrir að um málsmeðferð vegna þeirra framkvæmda sem félög samkvæmt 1. og 2. gr. laganna ráðast í á grundvelli þeirra fari eftir ákvæðum VII. kafla vegalaga, nr. 80/2007, með síðari breytingum.

Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í því er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að ákvæði 1. gr. frumvarpsins, sem verði 7. gr. laganna, gildi um eignarnámsákvarðanir sem teknar verða eftir að frumvarpið verður að lögum. Tilgangurinn er að eyða vafa um tilvist lagaheimildar til eignarnáms og gera lagaskil skýrari. Í öðru lagi er kveðið á um að málsmeðferð vegna töku ákvarðana um eignarnám sem hafist hefur fyrir gildistöku teljist fullnægjandi undirbúningur að ákvörðun um eignarnám að því tilskildu að allir þættir málsmeðferðarinnar uppfylli kröfur ákvæða málsmeðferðarreglna VII. kafla vegalaga, nr. 80/2007, með síðari breytingum. Nauðsynlegt þykir að koma í veg fyrir að gögn eða vinna sem þegar hefur verið unnin, þar sem undirbúningur einhverra framkvæmda kann að vera hafinn, fari í súginn með því óhagræði og eyðingu verðmæta sem slíku fylgir. Enda er sérstaklega kveðið á um það að tilhögun slíkrar vinnu eða gagnaöflunar standist fyllilega þær kröfur sem vegalög gera til eignarnáms.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef farið yfir er hér fyrst og fremst um að ræða og eingöngu varðandi þetta frumvarp að bæta inn í lög frá 97/2010 ákvæðum um eignarnámsheimildir og meðferð þeirra við þær opinberu framkvæmdir sem stendur fyrir dyrum að fara í og byggðar eru á þeim lögum. Er fyrst og fremst um tæknilegt atriði að ræða en ekki neina stefnubreytingu eða áherslubreytingu varðandi þær framkvæmdir sem í lögunum er getið.

Að lokinni þessari umræðu mælist ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.