139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að snupra einn eða neinn. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á þessu. Það hefur komið fram líka í þeim löndum sem við teljum okkur skyldust að þar eru verulega skiptar skoðanir á þessu, líka innan ríkisstjórna svo að það liggi fyrir.

Afstaða fastafulltrúans var ekki skilyrt með einu eða neinu þegar hún kom fram. En eins og hv. þingmaður veit eru ekki greidd atkvæði um mál af þessum toga. Það er leitað eftir samstöðu og ef enginn lætur það koma fram að það sé líklegt að viðkomandi þjóð sé á móti er hún ekki tálmi.

Ég vek eftirtekt hv. þingmanns á því að tveimur eða þremur dögum áður en þetta gerðist var farið í utanríkismálanefnd og málin voru kynnt, greint frá því hvað væri líklegt að gæti gerst. Ég hafði sjálfur sagt það hér í þinginu, ég held meira að segja við hv. þingmann í utandagskrárumræðu. Það var umboðið, það var búið að tala við þingið.