139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur þá fyrir að hæstv. utanríkisráðherra finnst fullkomlega eðlilegt að ræða ekki slíkar ákvarðanir sem vitað er að eru mjög umdeilanlegar í samstarfsflokki hans við forustumenn þess flokks vegna þess að ég endurtek að a.m.k. þrír ráðherrar, hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hafa sagt: Þessi afstaða var ekki á ábyrgð Vinstri grænna, við styðjum ekki þessa ákvörðun vegna þess að hún var ekki borin undir okkur. Það er alveg kýrskýrt að hæstv. utanríkisráðherra hefur eitthvað oftúlkað það umboð sem hann fékk hér í þingsal þó að ég geti, og ég endurtek það, glatt hæstv. utanríkisráðherra með því að ég studdi þá afstöðu sem fastafulltrúi Íslands greiddi atkvæði með eða lét í ljós í Atlantshafsráðinu.

Það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að atkvæði voru ekki beinlínis greidd en það er hægt (Forseti hringir.) að gera fyrirvara. Ég ítreka því spurningu mína: Er það alveg kýrskýrt að enginn fyrirvari hafi verið gerður af hálfu (Forseti hringir.) Íslands við þetta tækifæri?