139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þekkir innvolsið í Atlantshafsbandalaginu miklu betur en ég. Þessa umræðu höfum við átt áður á símafundi þegar ég var staddur erlendis og ræddum nákvæmlega sama mál og ég sagði henni alla vega þá sem svar við þessari spurningu: Mér er ekki kunnugt um að ríki geri fyrirvara við afstöðu sína.

Það kann vel að vera að það hefði verið betra eftir á að kalla saman fund í ríkisstjórninni þetta sunnudagskvöld. Ég taldi hins vegar að þar sem búið var að leggja ákveðna möguleika fyrir fulltrúa allra flokka í þeirri stofnun sem mér ber að hafa samráð við væri ég á auðum sjó með þetta. Hins vegar geri ég engar athugasemdir við það þó að einstakir ráðherrar og einstakir þingmenn, jafnvel í stjórnarliðinu, séu andstæðir þessu. Ég sé það gerast í öðrum löndum. Það sem skiptir mig máli er að ég trúi því einlæglega að þátttaka Atlantshafsbandalagsins í að samræma aðgerðirnar hafi leitt til þess að menn fóru mildar fram en t.d. þær þrjár (Forseti hringir.) þjóðir sem hafa túlkað ályktun öryggisráðsins miklu harðar en Atlantshafsbandalagið.