139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrstu spurninguna þá hefur hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sjaldnast rangt fyrir sér. Ég þori þó ekki að fullyrða að hann hafi rétt fyrir sér um að hægt verði að kjósa um aðildina 2013 en mér finnst það ekki ólíklegt.

Varðandi fríverslun í Kína er það af henni að frétta að ég held að ég sé ekki að segja hv. þingmanni ósatt þegar ég upplýsi hann um að annaðhvort þessa dagana eða næstu daga verður sérstakur fundur um framhald fríverslunarviðræðnanna við Kína. Ég geri mér góðar vonir um eins og hv. þingmaður mun kannski sjá þegar fram líður á sumar að það verði áfangar í þeirri gerð.

Varðandi Nuuk og tillöguna þá kom fram tillaga frá Íslandi og það var fast leitað eftir því að Ísland næði því að fá skrifstofuna hingað til lands, m.a. vegna þess að menn óttast að þær tvær undirskrifstofur sem hér á landi er að finna, PAME og CAFF, yrðu sogaðar burt. Það náðist ekki, við höfðum ekki stuðning til þess, en það liggja fyrir yfirlýsingar um að ekki verði hreyft við því starfi sem er hér nú þegar (Forseti hringir.) á Akureyri.