139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er akkúrat það sem ég óttast að verið sé að breyta sjávarútvegskerfinu hér í áttina að því sem gerist í sjávarútveginum í Evrópusambandinu. Við vitum bæði tvö að sjávarútvegskommissarinn innan ESB hefur einmitt lagt sig í líma við að reyna að breyta því kerfi sem þar er. Við erum hins vegar að fara í þveröfuga átt og þess vegna segi ég að frumvarpið sem liggur fyrir sé að mínu mati skemmdarverk á sjávarútvegi sem er best rekinn í öllum heiminum. Það þarf að rökstyðja sérstaklega hvernig hægt er að segja að slík breyting geti stutt við aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Ég er áhugamanneskja um að ná góðum samningi fyrir Ísland, áhugamanneskja um að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið en fara ekki einhverja skemmri skírn, og ég fagna því sérstaklega að utanríkisráðherra hefur eiginlega tekið fyrir það að fara með einhvern samning eftir að sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflanum lýkur. Ég vil ná heildstæðum samningi en ég óttast að það verði erfitt að ná okkar ýtrustu kröfum, okkar besta samningi þegar búið er að kollvarpa meginatvinnugrein okkar í landinu.