139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að hvergi innan ríkisstjórnar, í ráðherranefnd eða í samtölum mínum við starfsmenn mína hefur nokkru sinni verið rætt um að fresta atkvæðagreiðslu fram yfir kosningar ef það er hægt að taka hana hérna megin. Hv. þingmaður hefur oft heyrt mig spurðan í fjölmiðlum um það hvenær ég telji að af þjóðaratkvæðagreiðslu verði, ég hef aldrei farið nær því en núna áðan. Ég sagði að 2013 væri hugsanlegt. Hv. þingmaður má ekki gleyma því að hluti af árinu 2013 er líka á þessu kjörtímabili.

Efasemdin í mínum huga er bara sú, varnagli sem ég hef alltaf slegið, að við eigum eftir að hefja samningana. Eins og hv. þingmaður gat um í ræðu sinni er þar einn erfiður kafli fyrir okkur, erfiðari en aðrir, sjávarútvegurinn. Þar munu Íslendingar verða mjög fastir fyrir og við getum ekki gefið okkur hvenær samningnum um hann lýkur. Ef svo vildi til að það gengi greiðlega að semja um lausn sem við gætum sætt okkur við er ekki útilokað að atkvæðagreiðsla um samninginn gæti orðið mun fyrr en það sem jafnvel (Forseti hringir.) hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spurði mig um áðan, þ.e. um leið og þetta er búið.