139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einfaldlega að vekja athygli á þeirri staðreynd að það er nýtt að það komi fram hjá svona mörgum stjórnarliðum, eins og hæstv. ráðherra og hv. þingmanni sem ég nefndi sérstaklega áðan, að hugsanlega verði ekki hægt að útkljá þetta mál fyrr en eftir næstu kosningar. Mér þykja það tíðindi. Og mér þykir það enn óútskýrt. Eins og rætt hefur verið um þetta mál og það hefur þróast frá því að umsóknin var lögð fram hefur fram til þessa alltaf verið gengið út frá því að málið yrði afgreitt á næsta ári.

Það sem ég nefndi í ræðu minni og snýr að evrunni og þeim breytingum sem eru að verða þar og þeim auknu kröfum um framsal á efnahagslegu sjálfstæði til að geta verið þar inni tel ég einmitt þætti sem munu fara þvert ofan í íslenska þjóð öfugt við það sem hæstv. ráðherra telur. Og mér finnst reyndar vera fullt tilefni til þess (Forseti hringir.) að við fáum hingað í þingið sérstaka skýrslu frá utanríkisráðuneytinu um þróun þeirra mála.