139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég neita að trúa því fyrr en ég tek á því að nokkur ríkisstjórn léti sér detta í hug að ganga frá Evrópusambandsaðild án þess að leyfa þjóðinni að eiga síðasta orðið, sérstaklega um svona þætti eins og hv. þingmaður nefnir. Það kann þó vel að vera að þau hafi séð sér einhverja leiki á borði til að einfalda ferlið.

Ég tel hins vegar hina raunverulegu ástæðu fyrir þessu þá sem skrifað hefur verið um núna mjög nýlega, að við höfum ekki í landinu ríkisstjórn sem er einhuga um þetta mál og yfir höfuð líkleg til að geta komið með, eftir langar viðræður, samning og mælt fyrir honum þannig að trúverðugt sé. Þetta birtist á þeim fyrsta degi sem lagt var af stað þegar þingskjalið sjálft kom, enginn rökstuðningur var með málinu, annar flokkurinn áskildi sér rétt til að tala gegn því. (Forseti hringir.) Það er óbreytt enn þá og þess vegna eru menn að vandræðast þetta og ætla að reyna að ýta þessu fram yfir næstu kosningar.