139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:08]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var aldeilis röng útlegging af vikugömlum pistli mínum um það hvenær líklega yrði kosið um aðildarsamninginn við Evrópusambandið að það yrði sjálfkrafa gert eftir næstu kosningar. Ég spáði því, m.a. út frá fundi sameiginlegu þingmannanefndar Evrópusambands og Íslands um daginn, að samningsferlinu sem hefst formlega í lok júní lyki kannski að ári og þá tæki við nokkurra mánaða kynningarferli og síðan yrði kosið, ekkert um að það yrði eftir kosningar. Kosningar verða líklega um mitt ár 2013 og ekkert er því til fyrirstöðu að kjósa fyrir þær.

Það sem ég byggði álit mitt sérstaklega á var samanburðarfræði sem ég lagðist aðeins í úr aðildarsögu 27 ríkja Evrópusambandsins. Það aðildarferli sem stystan tíma hefur tekið frá því að umsókn fór inn þar til kosið var um aðild tók fjögur ár. Það voru Svíþjóð og Finnland, sem sagt EFTA-löndin, 1991 og önnur aðildarferli tóku mun lengri tíma. Ég sagði að ef við færum yfir þá sem hefðu farið inn á mestum hraða (Forseti hringir.) frá umsókn til atkvæðagreiðslu væru það fjögur ár.