139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Til umfjöllunar er skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Ég get tekið undir það sem kom m.a. fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að það hafi verið rétt skref þegar ákveðið var að utanríkisráðherra flytti þinginu skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál einu sinni á ári og hún yrði tekin til umfjöllunar í víðu samhengi. Ég vil þó geta þess að mér finnst mikilvægt að tækifæri gefist til að ræða utanríkis- og alþjóðamál við fleiri tilvik en bara það eitt þegar hæstv. utanríkisráðherra flytur skýrslu sína um málið og raunar er það gert í sölum Alþingis. Hugsunin er auðvitað að fara heildstætt yfir málin og reyna að tæpa á sem allra flestu og ef til vill er sá tími sem er til ráðstöfunar fyrir það of skammur.

Ég tel að í öllum meginatriðum komi þessi skýrsla hæstv. ráðherra inn á öll þau viðfangsefni sem við er að etja á málasviði utanríkis- og alþjóðamála og geri það ágætlega þó að við getum að sjálfsögðu haft mismunandi skoðanir á einstökum þáttum sem skýrslan greinir frá. Sumt í þessum texta er reyndar með orðfæri hæstv. utanríkisráðherra og nægir að lesa innganginn til að komast að því að þar hefur hæstv. utanríkisráðherra örugglega sjálfur haldið á penna.

Ég ætla að tæpa á nokkrum málum sem hafa verið til umfjöllunar. Ég byrja á málinu er varðar Evrópusambandið en um það er fjallað í III. kafla skýrslunnar frá bls. 15 og áfram. Í mínum huga tel ég þær viðræður sem við eigum í við Evrópusambandið vera í öllum meginatriðum í samræmi við þá lýsingu sem er að finna í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá árinu 2009 um það hvernig viðræðuferlið gengur fyrir sig. Ég tek ekki undir þau sjónarmið að nú sé þetta viðræðuferli með allt öðrum hætti og komið í annan farveg en gert var ráð fyrir. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að í meginatriðum hafi verið staðið við þann vegvísi sem nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar er. Það má kannski færa rök fyrir því að í einhverjum tilvikum hafi hlutirnir gengið hægar fyrir sig og er svo sem ekkert við því að segja.

Vegna umræðu sem hefur verið um tímasetningar og annað í því efni langar mig að það komi fram að ég tel að við eigum að fá niðurstöðu í þetta mál eins fljótt og unnt er. Ég lýsti því á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í lok apríl að ég teldi að við ættum að reyna að einhenda okkur sem fyrst í þá málaflokka sem við vitum að verða torveldastir í viðræðuferlinu, sem eru fyrst og fremst sjávarútvegsmál og að einhverju leyti aðrir málaflokkar eins og landbúnaðarmál og gjaldmiðilsmál. Við eigum að gera þetta og ég tel að um leið og við förum í viðræður um þá málaflokka í haust sé hægt að leiða það tiltölulega fljótt til lykta hvort grundvöllur er fyrir samkomulagi eða niðurstöðu sem menn hér á landi treysta sér til að segja að sé viðunandi. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að það eigi frekar að þrýsta á að atkvæðagreiðslan um þetta mál fari fram fyrr en síðar. Ég vil líka láta það koma fram vegna andsvars hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um að menn væru kannski vísvitandi að reyna að draga atkvæðagreiðsluna fram á næsta kjörtímabil og jafnvel var gefið í skyn að verið væri að beita sér fyrir breytingum á stjórnarskránni innan stjórnlagaráðs þannig að ekki þyrfti að spyrja þjóðina. Af minni hálfu kemur það ekki til greina. Það er alveg sama þó að stjórnlagaráð geri tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem mundu gera stjórnarskrárbreytingar í framtíðinni eitthvað auðveldari þá kemur ekki til greina að leiða Evrópusambandsmálið til lykta öðruvísi en í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil að það sé algerlega skýrt af minni hálfu. Það verður að sjálfsögðu gert og er það sem lagt var upp með í upphafi. Niðurstaðan úr samningaviðræðunum á að leggjast í dóm kjósenda.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að ljúka þessum aðildarviðræðum. Það hefur ekkert með það að gera hvaða afstöðu ég eða mínir flokksfélagar höfum síðan til þeirrar niðurstöðu sem út úr þeim kemur. Mín afstaða byggir á því að brýnt sé þegar þjóðin tekur afstöðu til þess hvort hún vill ganga í Evrópusambandið eða ekki að hún standi frammi fyrir tveimur góðum kostum. Hvor kosturinn sem verður ofan á verði alla vega til heilla fyrir íslenska þjóð. Það er alla vega mín von. Ég vona að allir þingmenn geti skrifað undir það að sú ákvörðun sem þjóðin tekur á hvorn veginn sem er verði til farsældar. Þess vegna er mikilvægt að samninganefnd Íslands leggi sig alla fram og stjórnvöld og Alþingi í að ná fram sem hagstæðastri niðurstöðu. Það er það sem ég hef að leiðarljósi í þeirri vinnu sem ég kem að á vettvangi utanríkismálanefndar og starfshóps hennar um Evrópumál en að sjálfsögðu verður hver og einn að taka málefnalega afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem kemur úr viðræðunum á eigin forsendum.

Það hefur margsinnis komið fram að afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sú að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan um leið og við teljum að það verði að leiða þetta mál til lykta með þeim hætti sem ferlið er í nú og þjóðin taki síðan afstöðu. Þess vegna höfum við, eins og Samfylkingin, í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, hvor flokkur um sig, áskilið okkur rétt til að halda uppi okkar málflutningi og baráttu þegar málið kemur til kasta þjóðarinnar.

Þá vil ég geta þess að í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er fjallað um þjóðaratkvæðagreiðsluna og tímasetningar hvað hana varðar. Þar er vakin athygli á því að í Noregi og Svíþjóð liðu um sex til sjö mánuðir frá því að viðræðum lauk og þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram, þ.e. hið svokallaða kynningarferli tók þann tíma. Við höfum skrifað það inn í okkar nefndarálit að við teljum að það sé viðmið sem við eigum að hafa í þessu efni. Þannig sé ég fyrir mér að það gætu liðið allt að sex mánuðir frá því að viðræðum lýkur og þar til þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram. En það er mál sem þarf að taka ákvörðun um sérstaklega þegar þar að kemur og við komumst á þann punkt.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að eyða meiri tíma í Evrópusambandsmálin að þessu sinni. Mig langar að nefna nokkra aðra þætti sem getið er um í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. Ég vil nefna þróunarsamvinnumál og lýsa yfir ánægju með þá vinnu sem lögð hefur verið í þau af hálfu utanríkisráðuneytisins og í þeirri þingsályktunartillögu sem við höfum núna til meðhöndlunar í utanríkismálanefnd um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Það er nýmæli að lögð sé fram sérstök stefnumótandi þingsályktunartillaga og þar getum við þingmenn sem tökum þátt í þeirri vinnu lagt okkar áherslur. Þar er sérstaklega fjallað um áherslusvið í þróunarsamvinnu af Íslands hálfu sem er auðlindamál, mannauður, friðarstarf og mannúðarmál. Hæstv. utanríkisráðherra nefndi að í tillögunni væri gert ráð fyrir því að árið 2020 eða 2021, hygg ég kannski frekar, gætum við náð viðmiði Sameinuðu þjóðanna um 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnumála. Ég lýsti því í umræðum um þessa þingsályktunartillögu að ég vildi gjarnan skoða það hvort svigrúm væri til að flýta þessu eitthvað. Ég veit að flestar Evrópuþjóðir reyna að ná þessu viðmiði heldur fyrr, 2015 eða 2016, og við munum skoða það á vettvangi utanríkismálanefndar.

Það er óhjákvæmilegt að fjalla aðeins um Líbíu og þau mál öllsömul og rétt að halda því til haga í þessu samhengi að stuðningur var við það í ríkisstjórn og líka af hálfu ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að taka undir ályktun nr. 1973 frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að vernda almenna borgara og hefja viðræður um pólitíska lausn á deilumálunum í Líbíu.

Þegar kom að því að NATO tæki ákvörðun um að taka að sér að vera í forsvari fyrir þær aðgerðir af þremur ríkjum, Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi, þá er það rétt að embættismenn utanríkisráðuneytisins gerðu grein fyrir því í utanríkismálanefnd að sú umræða færi fram á vettvangi NATO. Utanríkismálanefnd hafði verið upplýst um það og raunar var það almennt vitað því að um þær upplýsingar var einnig fjallað í fjölmiðlum. Ákvörðunin sjálf var hins vegar ekki tekin af utanríkismálanefnd, utanríkismálanefnd tekur ekki slíkar ákvarðanir og ber ekki ábyrgð á þeim, heldur var það gert á vegum framkvæmdarvaldsins. Ég hefði sjálfur talið skynsamlegt að pósitíf ákvörðun þar að lútandi hefði verið tekin á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Ég tel líka og get tekið undir með mörgum sem hafa fjallað um þau mál á alþjóðavettvangi að það stappi mjög nærri því að aðgerðir Atlantshafsbandalagsins séu komnar út fyrir það umboð sem ályktunin nr. 1973 gefur og þess vegna séu rök fyrir því að taka málið upp og jafnvel Atlantshafsbandalagið og Ísland beiti sér á þeim vettvangi fyrir því að Atlantshafsbandalagið hætti aðgerðum og menn reyni að koma stöðu þessara mála í friðarviðræður, viðræður um vopnahlé og pólitíska lausn. Ég tel það afar mikilvægt því að við vitum alveg hvernig aðgerðir af þessum toga hafa tilhneigingu til að draga allt á langinn og kosta þegar upp er staðið miklu meira mannfall en nokkur hafði gert ráð fyrir í upphafi. Þar er sagan ólygnust.

Mig langar enn fremur að nefna Palestínu sem hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu. Ég tel að þær fréttir sem við höfum núna fengið af þeim málum og samtölum milli hreyfinga Palestínumanna, viðræðum í Kaíró og viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar, séu afar jákvæðar. En ég tel líka að það sé mikilvægt fyrir okkur, eins og við höfum raunar gert og hæstv. utanríkisráðherra af mjög miklum myndarskap á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að tala máli Palestínu. Eins og staðan er tel ég að við höfum alla burði til að gera það áfram og að Norðurlöndin hafi núna, ekki síst Ísland, stöðu og möguleika á að halda áfram að beita sér af fullum þunga. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það. Ýmislegt bendir til að við séum jafnvel í betri færum en ýmis önnur ríki á Norðurlöndunum til að hafa forustu þar um.

Í þessari skýrslu, virðulegi forseti, er fjallað um margvísleg önnur mál, þ.e. utanríkisviðskiptamál og öryggismál. Ég vil einkum nefna að hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi tillögu um skipan nefndar til að vinna að sérstakri þjóðaröryggisstefnu. Mér finnst mjög mikilvægt að við, stjórnmálaöflin á Íslandi, reynum að ná saman um nýja nálgun og nýja hugsun í öryggis- og varnarmálum okkar og nálgast þau út frá miklu breiðara sjónarhorni en tíðkast hefur. Til þessa höfum við fyrst og fremst horft á þennan málaflokk út frá hernaðarlegu öryggi en staðreyndin er auðvitað sú að öryggismálin eru miklu víðfeðmari. Þar eru umhverfismál ekki síst, loftslagsmál þurfa að fá stóraukið vægi í umfjöllun um öryggismál. Samfélagslegt öryggi er af ýmsum toga og ógnir sem geta steðjað að grunnþjónustu okkar, heilbrigðisþjónustu, fjarskiptaþjónustu og öðru slíku þurfa að fá miklu meira vægi. Ég vonast til að um það geti orðið breið samstaða á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Bæði þessi tillaga og tillagan um alþjóðlega þróunarsamvinnu eru nú til umfjöllunar í utanríkismálanefnd og vonir mínar eru þær að við getum afgreitt tillögurnar á þessu þingi frá nefnd og jafnframt í þingsal.

Síðan tel ég að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar séu slegnir nýir tónar í utanríkisstefnu Íslendinga. Þar er nýjar áherslur að finna. Þar er sérstök áherslu lögð á norðurslóðamál sem hér hafa komið aðeins til umfjöllunar og ég hygg að séu mjög mikilvæg. Mikilvægt er að samtvinna hagsmuni okkar í loftslagsmálum og umhverfismálum almennt með utanríkismálum. Líka eru slegnir nýir tónar varðandi varnarmál og öryggismál, sem m.a. má sjá í þingsályktunartillögunni um þjóðaröryggisstefnuna, en líka eru þar tónar er varða friðlýsingu Íslands sem ég bind vonir við að við getum þokað áfram á þessu þingi.

Að öðru leyti, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, finnst mér mikilvægt að ýmis efni þessarar skýrslu fáist rædd á vettvangi utanríkismálanefndar þó að skýrslunni sé ekki formlega vísað þangað.