139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög skemmtilegur leikur sem ég er að biðja hv. þingmann um að koma með mér í. Í grein á Smugunni frá 16. maí 2011, eftir hæstv. menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, með leyfi forseta, segir:

„Í stefnuyfirlýsingu [ríkisstjórnarinnar] segir ekkert um aðild Íslands að NATO. Það er vegna þess að stefna flokkanna beggja er óbreytt varðandi aðild að hernaðarbandalaginu. VG er andvígt henni og tekur engan þátt í starfi NATO … Í raun má segja að hinn utanríkispólitíski meiri hluti á þinginu sé annar en stjórnarmeirihlutinn.“

Nú er það þannig að það er ekki hinn utanríkispólitíski meiri hluti sem tekur ákvörðun sem þessa í Norður-Atlantshafsráðinu heldur er það ríkisstjórn Íslands sem talar þar. Ríkisstjórn Íslands fer með þetta atkvæði. Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt að engir fyrirvarar hafi verið gerðir af hálfu Íslands þegar afstaða Íslands var kynnt. (Forseti hringir.) Ríkisstjórn Íslands kom þarna klofin að borðinu. Eftir á segja þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þeir hafi ekki verið spurðir. Og (Forseti hringir.) þá liggur beint við að spyrja: Hvað hefðu þeir sagt ef þeir hefðu verið spurðir (Forseti hringir.) og var fastafulltrúanum þá gert að segja ósatt um stuðning (Forseti hringir.) ríkisstjórnar Íslands?

(Forseti (KLM): Ég vil biðja þingmenn að gæta vel að ræðutíma í stuttum andsvörum sem eru aðeins ein mínúta.)