139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í neinn leik um það hvað menn hefðu sagt ef menn hefðu á einhverjum tímapunkti fengið einhverja tiltekna spurningu. Hv. þingmaður verður að spyrja þá viðkomandi ráðherra, sem hún beinir máli sínu að, að því.

Það sem ég get bara sagt er að það var kynnt fyrir utanríkismálanefnd á fundi að þessi umræða væri í gangi á vettvangi NATO og komið gæti til þess að NATO mundi taka ákvörðun um það að taka að sér að stýra þessum aðgerðum sem þrjú ríki höfðu þá þegar hafið.

Utanríkismálanefnd tók enga ákvörðun í þessu efni og tekur enga slíka ákvörðun. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Utanríkisráðherra hefur gert grein fyrir því hvernig hann mat málið og hvernig hann mat stuðning við þá ákvörðun sem hann tók og fastafulltrúi hjá NATO í hans umboði. Og það er auðvitað utanríkisráðherra sem svarar fyrir það (Forseti hringir.) gagnvart þinginu.