139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt vegna þess að hinar eiginlegu viðræður eru ekki byrjaðar sem ég tel að það sé ótímabært að taka ákvörðun um það að hætta viðræðunum. Ég tel að það verði að láta á það reyna, þau meginsjónarmið og meginhagsmuni sem við höfum skilgreint í viðræðum, áður en við tökum ákvörðun um að hætta þeim kannski. Ég tel að þarna sé að sjálfsögðu samhengi á milli.

Að því er varðar aðkomu Alþingis er því líka lýst í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar og þar er gert ráð fyrir því að tillaga að samningsafstöðu sé kynnt fyrir Alþingi. Ég geng út frá því sem vísu að í einstökum málaflokkum verði það viðræðunefndirnar sem byrji á því að taka þau mál saman, kynna fyrir utanríkisráðherra, ráðherranefnd um Evrópumál og síðan utanríkismálanefnd. Að lokum verði það að sjálfsögðu ríkisstjórnin sem stendur á bak við samningsafstöðu í hverjum einstökum málaflokki. En aðkoma Alþingis, bæði utanríkismálanefndar og einstakra fagnefnda eftir atvikum, (Forseti hringir.) þarf að vera alveg skýr.