139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta álitaefni kom reyndar skýrt fram í máli mínu áðan. Ég sagði þá að ég teldi, það er mín afstaða, rétt að ítreka að um þetta eru skiptar skoðanir í mínum flokki, en afstaða mín er sú að það eigi að ljúka þessum viðræðum, það eigi að freista þess að ljúka þessum viðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef líka sagt að ef það kemur upp í viðræðunum sjálfum, hinum efnislegu viðræðum, að við rekumst á slíka á veggi að við komumst hvorki lönd né strönd með okkar meginhagsmunamál verðum við að sjálfsögðu að meta það hvort rétt sé að hætta viðræðunum eða ekki.

Að því er varðar svo hina efnislegu afstöðu hefur flokkur okkar, eins og reyndar samstarfsflokkur okkar, Samfylkingin, áskilið sér rétt í stjórnarsáttmála til að halda uppi sínum málflutningi, sínum sjónarmiðum og sinni baráttu úti í samfélaginu um þetta mál. Ég mun því að sjálfsögðu ekki fyrir fram segja að ég ætli að koma hér, jafnvel þó að við komumst á endastöð með einhvern samning, og segja að ég ætli að mæla með honum. (Forseti hringir.) Það fer auðvitað alveg eftir því hvað er í slíkum samningi. Ég minni á grundvallarafstöðu míns flokks sem er að við teljum að hagsmunum okkar sé betur borgið utan ESB en innan.