139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[16:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að sjá að skýrslan, skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál hefst, þ.e. eftir að búið er að fjalla um borgaraþjónustu, á umfjöllun um norðurslóðir og mikilvægi þeirra í íslenskum utanríkismálum. Það er kannski ekki hægt að segja að íslensk stjórnvöld hafi beinlínis vanrækt þessi mál en það hefði hins vegar mátt leggja miklu meiri áherslu á að gæta hagsmuna Íslendinga í þessum efnum og sækja á vegna þess að við þurfum að sækja töluvert á frá því sem nú er. Þó að hér sé ágætislýsing á mikilvægi þessara mála hefur þeirri lýsingu og því sem áður hefur komið frá hæstv. utanríkisráðherra í þessum efnum ekki verið fylgt eftir sem skyldi að mínu mati. Líklega helgast það fyrst og fremst af þeirri ofuráherslu sem er á umsóknina um aðild að Evrópusambandinu vegna þess að hagsmunir Íslendinga á norðurslóðum og sú hagsmunagæsla sem þeim þarf að fylgja fer ekki að öllu leyti saman við þá hagsmuni sem kunna að felast í aðild að Evrópusambandinu.

Til dæmis var upplýst fyrir nokkrum dögum að Bandaríkin ætlist til þess að Grænlendingar velji um hvort þeir vilji vera í óformlegu eða formlegu bandalagi við Bandaríkin varðandi hagsmuni á norðurslóðum eða við Evrópu. Það eru allar líkur á því að Grænlendingar muni, eins og þeir hafa eiginlega gert nú þegar, velja að tengjast Bandaríkjunum nánari böndum. Það birtist m.a. í því að Bandaríkjamenn leggja nú mikið fjármagn í að styrkja Grænlendinga til mennta, sjá sér þá væntanlega hag í því að það verði til á Grænlandi stétt eða hópur fólks sem er í stakk búinn til þess að gæta hagsmuna Grænlendinga á norðurslóðum í samvinnu við Bandaríkin.

Íslendingar hafa hins vegar verið tiltölulega hlédrægir í þessum málum. Það er talað um landgrunnið og mikilvægi þess að gæta hagsmuna Íslendinga hvað það varðar. Þar höfum við ekki gengið jafnlangt og tilefni er til vegna þess að umræðan um norðurslóðir snýst ekki hvað síst um norðurskautið sjálft og það kapphlaup sem hefur orðið, friðsamlegt sem betur fer en kapphlaup engu að síður, um áhrif á því svæði. Af þeim sökum eru þjóðir, sérstaklega Rússar, að leggja mikla áherslu á rannsóknir á landgrunninu vegna þess að rökin fyrir því að lönd sem liggja að norðurslóðum eigi að hafa áhrif á gang mála á norðurskautinu eru byggð á því að þau tengist landfræðilega inn á norðurskautssvæðið. Þar af leiðandi eru Rússar eins og ég sagði að rannsaka hafsbotninn hjá sér til þess að geta fært fyrir því rök að Rússland tengist inn á þetta svæði.

Fá lönd hafa jafnsterk rök fyrir því að þau tengist landfræðilega alveg inn á norðurskautið og Ísland vegna þess að Norður-Atlantshafshryggurinn sem liggur alveg inn á norðurskaut er í raun undirstaða landsins, landið varð til úr Norður-Atlantshafshryggnum. Að vísu lendir Jan Mayen þarna á milli sem er dálítið óheppilegt og kemur inn á annað sem er áhyggjuefni á þessu sviði, að Íslendingar hafa ekki gert þá kröfu sem þeir ættu að gera til áhrifa á Jan Mayen sem var að sjálfsögðu íslensk eyja en Norðmenn hafa verið að sölsa undir sig smátt og smátt síðustu áratugina. Það þarf að huga að því vegna þess að þessi beinu tengsl Íslands inn á norðurskautið eru til þess fallin að styrkja mjög stöðu okkar á þessu mikilvæga svæði.

Jafnframt voru það mikil vonbrigði að höfuðstöðvar eða skrifstofu Norðurskautsráðsins skyldi fundinn staður í Tromsö en ekki í Reykjavík. Mér skilst á norskum þingmönnum sem ég ræddi þetta mál við að þeim hafi þótt áhugi Íslendinga á þessu máli koma ákaflega seint til og raunar svo seint að ekki hefði verið hægt að taka þann áhuga alvarlega. Þess vegna hef ég áhuga á að heyra hæstv. utanríkisráðherra lýsa því hvernig barátta Íslendinga fyrir að fá þessa skrifstofu til Reykjavíkur hafi gengið fyrir sig vegna þess að svo ótalmargt mælti með því að þessi starfsemi ætti að fara fram hér á landi. Ísland er í nokkurs konar miðpunkti þeirra þjóða sem eiga þarna hagsmuna að gæta. Það er beint flug til Íslands, ef ég man rétt, frá öllum þessum löndum nema reyndar Rússlandi en það gæti nú breyst innan tíðar, (Gripið fram í: Stendur til bóta.) og stendur til bóta eins og hv. formaður utanríkismálanefndar kallar hér fram í. Það var svo ótalmargt sem mælti með Íslandi sem staðsetningu, auk þess sem Ísland er að sjálfsögðu lítið og tiltölulega sakleysislegt land sem allir hefðu átt að geta sætt sig við. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. utanríkisráðherra lýsa því hvernig þessar umræður gengu fyrir sig og hvernig atkvæðagreiðsla féll, hverjir greiddu atkvæði með hvaða landi þegar kom að því að taka ákvörðunina.

Við þurfum að grípa til ýmissa ráðstafana til að tryggja hagsmuni okkar á norðurslóðum. Efling Landhelgisgæslunnar er þar mikið lykilatriði. Sumir halda því fram að efla eigi tengsl Landhelgisgæslunnar við starfsemi NATO, sem ætti ekki að vera vandamál í tilviki hæstv. utanríkisráðherra. Ástæðan fyrir því er sú að NATO ræður yfir skipum og tækjum sem eru í stakk búin til að fara inn á norðurslóðirnar þegar hefjast þar miklar siglingar.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að rekja öll þau tækifæri sem liggja í stöðu Íslands á norðurslóðum, ég ætla að gera það við annað tækifæri vegna þess að tíminn er skammur hér, en þau eru gríðarlega mikil og ég held að mér sé óhætt að segja miklu meiri og verðmætari en þau tækifæri sem kunna að felast í aðild að Evrópusambandinu. Þar af leiðandi er mikilvægt að Íslendingar forgangsraði og leggi mesta áherslu á stöðu sína á norðurslóðum þar sem hagsmunirnir eru mestir.

Við þurfum líka að fá það á hreint hvar Norðurlöndin standa gagnvart Íslandi og norrænni samvinnu. Rétt eins og Bandaríkin ætlast til að Grænlendingar ákveði sig með hverjum þeir ætli að vinna, hvar áherslan á að vera hjá Grænlendingum, verðum við að fá á hreint hjá Norðurlandaþjóðunum hvort þær séu fyrst og fremst, m.a. í samstarfi um norðurslóðir, að gæta hagsmuna ESB, líti á sig sem fulltrúa Evrópusambandsins þar, eða hvort þær líti fyrst og fremst á sig sem fulltrúa Norðurlanda, að þær séu að gæta sameiginlegra hagsmuna Norðurlanda. Það getur nefnilega vel verið að þessir fimm ríkja fundir — sem ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra um að eru verulegt áhyggjuefni, þ.e. að fimm lönd úr Norðurskautsráðinu séu í rauninni að fara fram hjá ráðinu og hittast sérstaklega — ættu að vera sex ríkja fundir, sem sé fundir strandríkjanna. Ísland er strandríki, ég held að það hljóti að vera óumdeilt þó að þessi fimm lönd hafi kannski viljað líta fram hjá því. En ástæðan fyrir því að þessi fimm lönd hafa verið að hittast til hliðar við Norðurskautsráðið skilst mér að sé ekki hvað síst sú að það reynist oft og tíðum erfitt að hafa fulltrúa Evrópusambandsins með í ráðum, eins og kanadískur embættismaður lýsti því að þegar Evrópusambandsland kemur að borðinu er það með þjóðþing 27 ríkja á herðunum og gerir allt samráð og samvinnu miklu erfiðari. Þannig að vilji menn komast hjá því að hafa Evrópusambandslöndin með getur verið að þetta þurfi að verða sex ríkja fundir frekar en átta, en a.m.k. eiga Íslendingar að leggja á það allt kapp að fá þarna aðkomu að.

Ástæðan fyrir því að við höfum kannski ekki lagt nógu mikið kapp á að gæta hagsmuna okkar á norðurslóðum er eins og ég nefndi áðan líklega umsóknin um aðild að Evrópusambandinu sem hefur tröllriðið allri pólitík á Íslandi undanfarin tvö ár og heldur betur sannast hversu óheppileg tímasetning umsóknarinnar var vegna þess að allt annað truflast í rauninni af umsókninni. Ríkisstjórnin, og sérstaklega auðvitað Samfylkingin, miðar allt út frá þessu umsóknarferli og hefur þar af leiðandi ekki gripið til nauðsynlegra ráðstafana í efnahagsmálum eða nýtt þau tækifæri sem við höfum haft í efnahagsmálum vegna þess að allt miðar að því að gera Evrópusambandinu til geðs og undirbúa eða taka þátt í þessu ferli. Icesave-málið er auðvitað eitt dæmi um það en fjölmörg önnur og í rauninni allar stærstu ákvarðanir í efnahagsmálum hafa truflast af þessu. Gjaldmiðilsmálið er auðvitað annað augljóst dæmi þar sem menn skoða ekki einu sinni aðra möguleika í stjórn peningamála en Evrópusambandið. Hér er því í rauninni allt í frosti á meðan hvort heldur er efnahagsstefnan, peningamálastefnan eða samskipti við önnur lönd, allt er í frosti á meðan þetta Evrópusambandsferli stendur yfir. Núna lítur allt út fyrir að það muni standa miklu lengur en menn höfðu gert ráð fyrir.

Hvað var sagt á sínum tíma þegar mælt var fyrir umsókninni? Að Ísland væri komið svo langt á leið að það tæki ekki nema, einhver nefndi — ég held meira að segja að það hafi verið Íslandsvinurinn Olli Rehn sem talaði um að hægt væri að klára þetta á 18 mánuðum og ríkisstjórnin var að sjálfsögðu óþreytandi við að gefa í skyn að hægt væri að ljúka þessu máli mjög einfaldlega og mjög hratt. Nú eru liðin tvö ár og ósköp lítið hefur gerst. Formlegar viðræður eru í rauninni ekki hafnar enn þá. Jafnframt er náttúrlega öllum orðið ljóst að ýmis þau rök sem voru færð fyrir því að leggja fram umsókn á sínum tíma standast ekki. Menn gátu í sjálfu sér alveg gefið sér það á þeim tíma, en því var haldið fram hér aftur og aftur, alveg endalaust, vikum og mánuðum saman í aðdraganda þessarar umsóknar að það eitt að sækja um aðild að Evrópusambandinu, það er eitt að sækja um aðildina mundi leiða til þess að gengi krónunnar tæki að styrkjast og allra handa trúverðugleiki landsins í efnahagsmálum mundi aukast. (Gripið fram í.) Þetta var notað sem rök fyrir því að það þyrfti að drífa í þessu á meðan aðrir bentu á að það ætti að klára önnur mál fyrst. Íslendingar ættu að koma sínum málum í lag og taka síðan ákvörðun um að sækja um aðild úr sterkari stöðu og meta þá hina raunverulegu kosti og galla Evrópusambandsins í stað þess að líta á þetta sem einhvers konar neyðarúrræði í efnahagskrísu. Nei, þá var sagt að þetta væri einmitt nauðsynlegt neyðarúrræði. Þetta væri forsenda þess að við gætum náð okkur upp úr krísunni og áhrifin áttu að koma strax fram við umsókn og því lá svo á að skila inn umsókninni. Gengið átti að styrkjast þann sama dag. Hvað gerðist? Ég held að gengið hafi veikst lítillega daginn sem umsóknin var samþykkt og hefur síðan smátt og smátt verið að veikjast.

Hér er talað um samningaviðræður, að þær hefjist formlega, þetta er kafli 3.3. Evrópusambandið sjálft hefur varað við því að menn noti þetta orðalag vegna þess að orðið samningaviðræður gefi í skyn að verið sé að ræða um samruna tveggja jafnra aðila, nánast eins og verið sé að ræða um að sameina Ísland og Evrópusambandið og Evrópusambandið muni þá taka breytingum með hliðsjón af því. Það er ekki raunhæft. Þetta höfum við fengið að heyra aftur og aftur. Raunar má segja að fulltrúum Evrópusambandsins sé stundum dálítið misboðið þegar þeir heyra hvernig umræðan fer fram hér á landi þar sem ítrekað er gefið í skyn af hálfu íslenskra stjórnmálamanna að hægt sé að gera veigamiklar breytingar á því hvernig Evrópusambandið starfar. Þá fáum við oft að heyra, þegar við hittum fulltrúa Evrópusambandsríkjanna, vinsamlegar útskýringar á því að Evrópusambandið sé samband 27 ríkja og 500 milljóna manna. Þegar eitt 300 þús. manna land sæki um að verða þátttakandi í þessu sambandi 500 milljóna gangi menn út frá því að viðkomandi ríki vilji verða þátttakandi í því sem Evrópusambandið gengur út á, enda hefur það legið fyrir a.m.k. frá miðjum 10. áratug síðustu aldar að umsókn um aðild að Evrópusambandinu fæli í sér að menn vildu ganga í sambandið, vildu gerast aðilar að því sem það gengur út á. Hér er hins vegar hvað eftir annað talað um að við séum ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu af því að við ætlum endilega að ganga inn í það, heldur til þess að sjá hvað okkur verður boðið. Þetta er bara nálgun sem mætir ekki nokkrum einasta skilningi í Evrópusambandinu og eðlilega enda hefur það legið fyrir árum saman að þeir sem sækja þar um aðild vilji ganga í Evrópusambandið á forsendum þess og verða þátttakendur í því sem Evrópusambandið gengur út á. Þessa umræðu hefur alveg vantað, hvort Íslendingar vilji verða þátttakendur í því sem Evrópusambandið gengur raunverulega út á. Hér fór í aðdraganda umsóknarinnar ekki fram nein umræða um hugsjónir Evrópusambandsins, um sameinaða Evrópu, eða hvort þær reglur sem nú gilda í Evrópusambandinu henti Íslendingum. Nei, umræðan var öll um það annars vegar að þetta væri neyðarúrræði við efnahagskrísunni og hins vegar að við ættum að láta á það reyna að hve miklu leyti við gætum breytt Evrópusambandinu.

Af því að hæstv. utanríkisráðherra nefndi sérstaklega ályktun flokksþings framsóknarmanna um Evrópusambandsumsóknina er nú tilefni til að útskýra fyrir ráðherranum að þar er lögð áhersla á að stór mál eins og Evrópusambandsumsóknin, það er nefnt sem dæmi, sem upp kunni að koma og nái þau til enda, fari í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni, að þjóðin hafi síðasta orðið. Það er nefnilega ekki þannig núna með umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það er vandinn. Þess vegna var ástæða til að hnykkja á þessu, að ef menn færu alla leið þyrfti þjóðin að eiga síðasta orðið. Eins og staðan er núna á þjóðin ekki síðasta orðið. Það verður leitað álits þjóðarinnar í ráðgefandi (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu en svo mun Alþingi eiga síðasta orðið.