139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans um þessa skýrslu. Það er tvennt sem ég vildi nefna og hvort tveggja varðar ESB-ferlið og samþykktir Framsóknarflokksins. Á flokksþingi Framsóknarflokksins var annars vegar samþykkt sú afstaða að hagsmunum okkar væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan og hins vegar var felld tillaga um að draga ætti umsóknina til baka. Hver er afstaða Framsóknarflokksins til ferlisins sem er núna í gangi? Hvernig túlkar formaður flokksins þessa niðurstöðu? Flokkurinn vill alla vega ekki draga umsóknina til baka en hann telur að við eigum að standa utan ESB. Ber þá ekki að líta svo á að það sé afstaða flokksins að ljúka eigi viðræðunum en hann muni síðan berjast gegn niðurstöðum sem út úr því kemur?

Hitt varðar það að þjóðin eigi síðasta orðið. Það hefur allavega komið fram og kom fram í umræðunni hér á sínum tíma, 2009 tel ég, um þetta mál, ég held að flestir sem tóku þátt í þeirri umræðu ef ekki allir hafi lýst þeirri afstöðu sinni að enda þótt þjóðaratkvæðagreiðslan og niðurstaða hennar væri ekki lagalega bindandi, af því að ekki er gert ráð fyrir því í stjórnarskránni eins og hún er í dag, yrði hún allavega pólitískt bindandi fyrir einstaka stjórnmálaflokka.

Ég vil heyra viðhorf þingmannsins til þess, formanns Framsóknarflokksins, hvort hann líti ekki svo á að sú niðurstaða sem þjóðin mundi komast að í þjóðaratkvæðagreiðslu væri pólitískt siðferðilega bindandi fyrir stjórnmálaflokka og þar með talið hans.