139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hvetja hv. þingmann og formann Framsóknarflokksins til þess að veita því sérstaka eftirtekt að talsmenn stjórnarflokkanna sem hafa þegar talað í þessari umræðu gefa stefnu og samþykktum Framsóknarflokksins gaum. En af málinu sjálfu er mér sem sagt enn þá ekki ljóst hver hin raunverulega stefna Framsóknarflokksins er til þessara álitamála um hvort eigi að hætta eða halda áfram viðræðunum.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna og sannfæringu þingmanna sem hv. þingmaður gat um þá er sannfæringin flókið fyrirbrigði. Stundum standa menn frammi fyrir því að menn hafa margs konar sannfæringar, ef svo má að orði komast, og stundum fara þær ekki alveg saman. Ég hef til að mynda þá sannfæringu í þessu máli að þjóðin eigi að ráða því til lykta.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki þá sannfæringu að þjóðin eigi að ráða þessu máli til lykta. Ef það er sannfæring þingmannsins, er þá ekki eðlilegt að hann greiði atkvæði í þingsal þegar þar að kemur í samræmi við þá sannfæringu sína? Eða hefur hann kannski einhverja aðra sannfæringu um að þjóðin eigi ekki að ráða í þessu máli? Þetta finnst mér mikilvægt álitaefni sem ég óska eftir að hv. þingmaður svari: Er hann sammála mér í því að enda þótt þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram fer um þetta álitaefni sé ekki bindandi samkvæmt stjórnarskránni geti hún haft pólitíska bindingu ef svo má segja eða siðferðilega og hafi menn þá sannfæringu að þjóðin eigi að ráða málum til lykta hljóti menn að fara eftir niðurstöðu þjóðarinnar?