139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það er eitt sem hæstv. utanríkisráðherra hefur framar mörgum í þessum þingsal að hann er afar orðhagur og í raun og veru get ég tekið undir það að utanríkisráðuneytið hefur staðið sig með einstakri prýði í mjög mörgum málaflokkum. Það má ekki taka frá fólki þegar það gerir vel. Ég vona að ég hafi gert ánægju minni með störf ráðuneytisins og ráðherrans nægjanleg skil í ræðu minni og fagna því ef afstaða hans til Sýrlands hefur farið fram hjá mér. Ég vonast til þess að sú afstaða komi fram á vef utanríkisráðuneytisins og vonandi á ensku líka þannig að hægt sé að dreifa henni, (Gripið fram í: … arabísku.) og arabísku sérstaklega.

Ég sagði aldrei og gaf ekki í skyn að aðildarviðræðurnar tækju allan tímann, ég var meira að tala um fókusinn, að þetta væri það sem fólk upplifði, að það þyrfti að koma því frá áður en hægt væri að gera aðra hluti og þá erum við kannski að tala um hluti sem heyra ekki beint undir ráðuneyti ráðherrans.