139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Skýrsla hæstv. utanríkisráðherrans er umfangsmikil og ítarleg. Ég er þeirrar skoðunar að tilvist, öryggi og hagsæld lítillar þjóðar séu best tryggð í samvinnu við aðrar þjóðir í fjölþjóðastofnunum, í samtökum eins og Evrópusambandinu, Atlantshafsbandalaginu, Norðurlandaráði og innan Sameinuðu þjóðanna. Af skýrslunni er augljóst að hæstv. utanríkisráðherra og ég erum sammála um þessa stefnu og hann og starfsmenn hans hafa ekki setið auðum höndum við að sinna þessu stefnumiði og vinna eftir því.

Evrópumálin eru mér samt efst í huga enda er ég líkt og áður þeirrar skoðunar að þau séu mest áríðandi í utanríkismálum okkar nú um stundir. Það er fagnaðarefni að samningaviðræðurnar ganga vel og samkvæmt áætlun. Okkur þingmönnum hefur verið gerð glögg grein fyrir framgangi rýnivinnunnar sem nú er í gangi. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins gera Evrópusamráðshópi utanríkismálanefndar glögga grein fyrir þeim atriðum sem þeir leggja fram á fundum með starfsmönnum Evrópusambandsins. Þingmenn sem starfa í öðrum nefndum en utanríkismálanefnd mæta á þessa fundi þegar svo ber undir. Ég minnist að minnsta kosti tveggja funda sem þingmenn sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hafa setið og ég minnist funda sem þingmenn í efnahags- og skattanefnd hafa setið. Þetta er í samræmi við það sem sett var fram, að allar samningaviðræðurnar yrðu gagnsæjar og þingmönnum kunnar. En ekki geta einungis þingmenn fylgst grannt með samningaviðræðunum heldur líka allir þeir landsmenn sem hafa nennu, getu og vilja til enda er það hinn eðlilegi gangur þegar samið er um svo veigamikil atriði sem skipta okkur öll miklu máli hvar sem við erum í sveit sett.

Svo sem fram kemur í skýrslu utanríkisráðherra hafa aðalsamningamaður og samstarfsmenn hans haldið ótal fundi um borg og bý og kynnt starf sitt og svarað spurningum. Það er ekki bara ánægjulegt að lesa þetta í skýrslu hæstv. ráðherra, hitt er miklu ánægjulegra að hafa hitt fjöldann allan af fólki sem hefur sótt þessa fundi og fundist þeir bæði fræðandi og ekki síður gagnlegir. Því verður ekki haldið fram að vinnan við aðildarumsókn sé ekki gagnsæ og að hún sé ekki uppi á borðum.

Í nefndaráliti utanríkismálanefndar sem mælti með því að umsókn um aðild að Evrópusambandinu yrði lögð fram, svo sem gert var í þessum sal í júlí 2009, var einmitt mælt fyrir um að þessi háttur yrði hafður á og tillagan var samþykkt eins og við öll vitum. Óhætt er að fullyrða að aldrei fyrr hafa samningaviðræður um aðild nokkurs lands að Evrópusambandinu farið fram fyrir svo opnum dyrum eins og raun ber vitni hér á landi. Eiginlegar samningaviðræður eru þó ekki hafnar en það verður gert á ríkjaráðstefnu í júní. Þá verða fimm kaflar opnaðir, eins og sagt er, kaflar um opinber innkaup, samkeppnismál, upplýsingasamfélagið og fjölmiðla, vísindi og rannsóknir og loks um menntun og menningu. Allir eru þessir kaflar hluti af EES-samningnum og ákvæði þeirra eru því að mestu eða öllu leyti komin inn í íslenska löggjöf. Ekki er því við að búast að samningar um þá taki langan tíma.

Þrátt fyrir að að samningaviðræðum sé staðið eins og lýst hefur verið er samtal manna, sérstaklega stjórnmálamanna, um þetta mikilvæga málefni ekki á mjög málefnalegum nótum. Þeir sem eru andvígir Evrópusambandsaðild virðast hafa litla sem enga þolinmæði fyrir því að freista þess að ná samningum um viðkvæm mál eins og landbúnaðarmál og sjávarútveg. Andstæðingarnir hafa frekar uppi hróp og köll um að hætta viðræðum. Samt er enginn ágreiningur um að þegar samningur liggur fyrir verður hann lagður í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hv. formaður Sjálfstæðisflokksins eyddi drjúgum tíma ræðu sinnar í útúrsnúninga og orðaleiki um þjóðaratkvæðagreiðslu, hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram og hvort fólk væri með eða á móti. Mér fyndist nær að menn sneru bökum saman og legðust á eitt við að ná góðum samningum. Ég furða mig á vantraustinu sem mér finnst liggja að baki því að vilja ekki halda samningaleiðinni áfram til enda. Ég furða mig á því að ekki leggist allir á eitt við að ná sem hagstæðustum samningum fyrir okkur öll. Ég furða mig á því að fólk telji betra fyrir okkur að vera áfram í EES-samstarfinu þar sem við höfum litla sem enga möguleika á því að hafa áhrif á þau lög og reglur sem við ætlum að búa atvinnulífinu, menntakerfinu, fjármálakerfinu og yfirleitt flestu því sem snertir uppbyggingu þjóðfélagsins. Ég hélt að hverjum manni væri ljóst að sá eða sú sem situr á fundi hefur meiri áhrif en þeir sem eru á áheyrendapöllum. Þrátt fyrir þetta halda menn áfram að tala um það í Evrópusamningaviðræðunum sem ekki eru aðalatriði heldur aukaatriði. Ég vil taka það fram að ég tel EES-samninginn mjög góðan samning og hafa reynst okkur vel, engu að síður er hann hjóm eitt hjá því að vera í Evrópusambandinu vegna þess að þar höfum við rödd sem við höfum ekki í EES-samstarfinu í raun.

Í lok mars var stefna Íslands í málefnum norðurslóða samþykkt á Alþingi. Sú tillaga er mjög mikilsverð jafnvel þó að breytingar á þeim slóðum verði ekki eins hraðar og sumir búast við. Kannski ættum við einmitt að vona að þær verði ekki mjög hraðar þar sem ófyrirséð er hvaða afleiðingar svo miklar breytingar á náttúrunni hafa fyrir okkur öll. Ég segi þetta þó að vissulega megi telja upp ýmis jákvæð efnahagsleg áhrif sem breytt umhverfi norðan við okkur gæti haft á okkur hér heima. Auðvitað höfum við ekki ein áhuga á þessum breytingum, það á við um aðrar norðlægar þjóðir. Áhuginn er kannski ekki mjög hátt á lista hjá þjóðum sem telja sig ekki hafa þar beinna hagsmuna að gæta. Í samtölum við nokkra þýska þingmenn sem ég hitti í ferð utanríkismálanefndar til þýska þingsins í haust var t.d. ljóst að málefnið er ekki ofarlega á lista hjá þeim þó að einstakir þingmenn hafi það vissulega að sérstöku áhugaefni. Þetta sýnir að þar höfum við erindi að kynna samstarfsþjóðum hversu miklu máli breytingarnar í Norðurhöfum skipta.

Ég fagna því að í stefnu okkar er sérstaklega minnst á málefni frumbyggja og lögð áhersla á að þeir verði með í ráðum þegar stærri þjóðir fara að ráðskast meira en nú er um þann heimshluta sem er heimili þeirra. Það stendur okkur lítilli þjóð næst að skilja afstöðu þeirra og veita málflutningi þeirra fulltingi þar sem við getum.

Margt fleira má nefna svo sem Norðurlandasamvinnuna, starfið innan Sameinuðu þjóðanna og þróunarsamvinnu en nú er til umræðu langtímastefna í þeim mikilsverða málaflokki. Síðan vil ég nefna tillögu sem lögð hefur verið fram um að skipa nefnd til að ræða nýja þjóðaröryggisstefnu en von mín er að okkur takist að afgreiða þá tillögu á þessu þingi.

Virðulegi forseti. Ég vil loks nefna það sem sjaldan er nefnt í umfjöllun um utanríkismál en er þó fyrsti kaflinn í skýrslunni hér og það er borgaraþjónustan sem kölluð er svo, vinnan sem starfsmenn í almennri grunnþjónustu utanríkisþjónustunnar vinna frá degi til dags og oft um kvöld og helgar þegar nauðsyn krefur. Kannski má orða það svo að þetta sé vanþakklátt starf því að í umræðunni er oft hneykslast á fjölda sendiráða og sagt að við svo fámenn höfum ekki efni á því að hafa sendiráð úti um allt. Ég trúi því þó að þeir sem hafa þurft að nota þjónustu þessa starfsfólks okkar á erlendri grund viti að hún er mjög veigamikil (Forseti hringir.) og við megum ekki gleyma svo sjálfsögðum hlut þegar við ræðum um það sem okkur þykir kannski (Forseti hringir.) stærra og merkilegra í sniðum.