139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir erum ekki á sömu skoðun varðandi grundvallarspurninguna um aðild að Evrópusambandinu og kannski kemur það ekki á óvart. Ég vona þó að hv. þingmanni þyki það ekki til marks um að ég sé að beina athygli með stóryrðum að aukaatriðum þó að ég spyrji hana út í svipaða hluti og ég spurði hv. formann utanríkismálanefndar, Árna Þór Sigurðsson, út í hér áðan, þ.e. varðandi aðkomu Alþingis að mótun samningsafstöðu í einstökum köflum samningaviðræðna við Evrópusambandið.

Nú má lesa það út úr þeim textum sem liggja fyrir, þar á meðal áliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009, að við það verði látið sitja að kynna samningsafstöðu fyrir utanríkismálanefnd. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort henni þætti það næg aðkoma Alþingis að samninganefnd eða utanríkisráðherra kynni samningsafstöðu í alla vega mikilvægustu málaflokkunum fyrir utanríkismálanefnd þingsins, hvort hv. þingmaður telji að með því sé aðkoma Alþingis nægilega tryggð að samningaferlinu.