139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[17:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég játa það að eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hef ég ekki alveg mótað mér skýra afstöðu til þess hvernig ég tel að þetta samráð eigi að vera. Á þessari stundu er ég þó tilbúinn til að segja að ég tel að samráð utanríkisráðherra og samninganefndar við þingið eigi að vera meira en bara það að kynna samningsmarkmiðin eða samningsafstöðuna í einstökum málaflokkum fyrir utanríkismálanefnd.

Ég minnist þess að í ágætu nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er vikið að því, reyndar í stuttum kafla, hvernig því hafi verið háttað og sé háttað í ýmsum öðrum ríkjum. Meðal annars er nefnt að í Króatíu, sem er á fullu í viðræðum núna, hafi verið mótuð sú stefna að afstaða í hverjum kafla fyrir sig væri kynnt í þinginu og eftir því sem mér skildist þá fyrir viðkomandi þingnefnd í þeim málaflokki sem málið snýst um (Forseti hringir.) og væntanlega með það að markmiði að kalla eftir afstöðu þingsins eða þingmanna (Forseti hringir.) til þessarar afstöðu eða markmiða.