139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir umræðuna í dag. Ég held að mjög brýnt sé að Alþingi fari rækilega yfir utanríkismál með reglulegu millibili. Ég hygg raunar að vegna þeirra mála sem nú liggja fyrir Alþingi sé ástæða til frekari skýrslugjafar hér vegna utanríkismála og ekki sé einungis lögð fram heildarskýrsla því heilmargt kallar á að sérstakar skýrslur verði gerðar um afmarkaða hluti. Ég er þá fyrst og fremst að hugsa um þróunina í Evrópu.

Ég vil í upphafi koma inn á og kannski bregðast við því sem komið hefur fram í dag að menn leggja mikla áherslu á að vinnan við umsóknarferlið við Evrópusambandið sé gegnsæ og að þingið sé mikill þátttakandi í því.

Ég vil í því sambandi vísa sérstaklega til blaðsíðu 15 í skýrslu utanríkisráðherra þar sem segir, með leyfi forseta:

„Mikil áhersla hefur verið lögð á að umsóknarferlið sé gegnsætt, eins og lýst hefur verið yfir á fyrri stigum málsins, bæði af hálfu utanríkisráðherra og meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Víst er að í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar eru fjölmörg atriði tiltekin um að ferlið skuli vera opið og gegnsætt. Engu að síður hefur það sem er í orði ekki endilega verið þannig á borði. Ég vil í því sambandi sérstaklega nefna sameiginlega þingmannanefnd Evrópusambandsins og Íslands um umsóknarferlið. Til eru reglur sem sjá má á vef Alþingis um að sú nefnd eigi að starfa fyrir opnum dyrum og að gestir geti komið á fundi nefndarinnar þegar mál eru til umræðu. Ég held að mjög mikilvægt sé, virðulegur forseti, að menn veki sérstaklega athygli á því þegar nefndin hittist að fundirnir séu opnir og að fjölmiðlar og aðrir sem hafa áhuga á að kynna sér hvað er að gerast þarna mæti á þessa fundi og fylgist með. Ég held að það sé mjög brýnt. Ef menn setja reglur af þessum toga eins og þarna hefur verið gert, þar sem sérstaklega er tiltekið að fundirnir séu opnir, á auðvitað að vekja athygli á því. Jafnvel þótt nefndarfundir séu auglýstir á vef Alþingis er það jafnan svo að nefndir þingsins starfa fyrir luktum dyrum. Þegar um annað er að ræða þarf að vekja sérstaklega athygli á því. Ég held að mikilvægt sé að gera það.

Síðan vil ég nýta þennan stutta tíma sem ég hef til að ræða skýrsluna og ég vil eiginlega tala um það sem ekki er í henni. Hér er auðvitað farið um víðan völl um utanríkismál eins og eðlilegt er í heildarskýrslu en samt er athyglisvert hvað stendur ekki í henni. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um viðræðurnar um aðild að Evrópusambandinu. Ég held nefnilega að mjög mikilvægt sé í skýrslu af þessum toga og í umræðum í þinginu að sérstaklega sé farið yfir hver staðan er núna í Evrópusambandinu, hvað menn ræða á vettvangi þess, hvaða veikleikar eru þar á ferðinni og eftir atvikum styrkleikar, og menn setji það heildstætt á dagskrá.

Hér er kafli sem snýr fyrst og fremst að umsóknarferlinu og hvernig það gangi fyrir sig o.s.frv. En auðvitað hefur mjög mikið gerst í Evrópu frá því að umsóknin var lögð inn. Gríðarleg gerjun er í Evrópu, ég get nefnt fjölmörg dæmi, t.d. varðandi gjaldmiðilinn. Þegar menn koma upp og segja að mjög brýnt sé að við göngum í Evrópusambandið til að taka upp evru verður að spyrja: Hvernig gengur með evruna núna, hvert stefnir hún? Hvað er á ferðinni í evrusamstarfinu? Um hvað er verið að tala núna? Sérstaklega þarf að ræða málin sem uppi eru í Grikklandi og áhyggjur sem menn hafa af þróun mála þar. Líka þarf að fylgjast með því hvort það verði að veruleika að evrusamstarfinu verði einhvern veginn skipt upp og til verði A- og B-evra. Þessu þurfum við öll að fylgjast mjög rækilega með. Við Íslendingar höfum náttúrlega þær skyldur og við þingmenn að ræða gjaldmiðilsmálin af einhverjum rökum og að umræðan um þau sé djúp. Það skiptir gríðarlega miklu máli hver þróunin er í Evrópusambandinu varðandi evruna.

Mér þótti hæstv. utanríkisráðherra halda töluvert mikla varnarræðu um umsóknarferlið fyrr í dag. Hann sagði, ef ég man rétt, eitthvað á þá leið: Hvaða sögu segir það fyrir okkur að önnur ESB-ríki vilji vera þar? Ja, það segir okkur ekki neina sérstaka sögu. Þeir sem vildu ganga í Evrópusambandið og eru þar vilja væntanlega vera í Evrópusambandinu. Okkar meginafstaða er: Hvað þjónar íslenskum hagsmunum best? Það hlýtur að skipta okkur mestu máli. Við hljótum að gera það sem er best fyrir íslenska hagsmuni og þótt Evrópusambandslöndin vilji vera áfram í Evrópusambandinu eru það engin rök fyrir því að við eigum að vera þar. Við þurfum að taka eigin afstöðu, grundvallaða á ríkum hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Ég held að í því sambandi, á þeim afskaplega stutta tíma sem ég hef og líður mjög hratt, sé ekki hægt annað en að nefna sjávarútvegsmálin.

Ég vil grípa aftur niður í skýrsluna en á bls. 19 segir, með leyfi forseta:

„Á fundinum var lögð áhersla á mikilvægi sjávarútvegs fyrir Ísland, góðan árangur við fiskveiðistjórn og sérstöðu Íslands í sjávarútvegi, þar á meðal landfræðilega legu efnahagslögsögunnar og samsetningu afla […].“

Virðulegi forseti. Ég get ekki betur séð en að í skýrslunni sé fiskveiðistjórnarkerfi Íslendinga rómað sérstaklega. Á sama tíma hefur verið boðuð, og ég hygg að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi samþykkt það í dag, umbylting á kvótakerfinu. Við höfum heyrt að Evrópusambandið horfi til núverandi kerfis okkar sem skynsamlegs þegar kemur að fiskveiðistjórn, það er markaðsdrifið kerfi sem hefur skilað íslensku þjóðinni gríðarlegum ábata og má með sanni segja að er undirstaða þeirrar velferðar sem hér hefur ríkt.

Á sama tíma og hæstv. utanríkisráðherra nefnir þetta í skýrslunni er verið að breyta þessu kerfi í grundvallaratriðum og færa það miklu nær því félagslega sjónarmiði sem kerfin í Evrópu hafa verið rekin eftir. Hjá þeim þjóðum er sjávarútvegurinn ekki sá meginstofn sem hann er okkur. Hér er hann miðja og upphaf alls þess efnahagslega ábata sem við Íslendingar höfum notið. Sjávarútvegurinn er okkur gríðarlega mikilvægur og það mun skipta sköpum í öllu tali um Evrópusambandið og umsóknina hvernig á þeim málum er haldið. Ég vil þess vegna taka undir það sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að auðvitað er voðalega erfitt að eiga orðastað um umsóknina að Evrópusambandinu þegar við erum ekki enn farin að ræða það sem við vitum að er stóra ágreiningsefnið, sjávarútvegsmálin. Þau eru grundvallarmál fyrir Íslendinga. Það er dálítið erfitt að vera í þessum viðræðum þegar við erum ekki enn komin á þann stað að ræða þau. Maður veltir fyrir sér hvort ekki hefði verið heppilegra að taka þau til greina fyrr.

Í upphafi kjörtímabilsins var mikið rætt á Alþingi að það mundi breyta miklu fyrir okkur að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Hæstv. forsætisráðherra tók það sérstaklega til umfjöllunar í stefnuræðu sinni. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Þannig mundu jákvæð áhrif koma fram strax þegar ósk um aðildarviðræður lægi fyrir og búast má við að þau jákvæðu áhrif færu vaxandi eftir því sem umsóknarferlið gengur lengra.“

Hér segir hún að þetta muni strax hafa áhrif á gengi krónunnar. Reyndar hafa gjaldeyrishöft verið hér á landi frá lokum árs 2008 svo það var náttúrlega útilokað að umsókn um aðild að Evrópusambandinu hefði áhrif á gengi krónunnar. Umræðan hefur dálítið verið á þessum villigötum.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði áðan að menn ættu að einbeita sér að aðalatriðunum og ég er hjartanlega sammála því. Aðalatriðið snýr auðvitað að grundvallarhagsmunum þjóðarinnar, það skiptir mestu máli og að við fylgjumst mjög grannt með umræðunni sem nú er í Evrópu. Hvert stefnir Evrópusambandið og hvað sjá menn fyrir sér þegar kemur að evrunni og hvaða aukna miðstýring er þar á ferðinni sem menn hafa boðað? Það er afskaplega brýnt að við ræðum þetta þegar við tökum afstöðu í málinu og ég kalla eftir að það verði gert. (Forseti hringir.) Ég hygg að skynsamlegt væri að gerð yrði sérstök skýrsla um það álitamál.