139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[18:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði hvergi í máli mínu að ætlun manna hefði verið að halda fundinum leyndum, alls ekki. Ég sagði að nauðsynlegt væri að vekja athygli á þessum fundum. Það var ekki gert í þessu tilviki. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir segir að breyting verði á næst. Ég er bara að vekja athygli á mikilvægi þess að gera þetta fyrir opnum tjöldum. Og af því að sérstakar reglur gilda um nefndina, virðulegi forseti, þess þá heldur. Það var það sem ég sagði.

Ég hygg líka að mjög brýnt sé að í þjóðfélaginu fari af stað umræða um umsóknarferlið. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að almenningur hafi sem gleggstar upplýsingar um það sem þar fer fram. Um það er m.a. rætt í þessari tilteknu nefnd og varpar ljósi á það.

Ég vil nota tækifærið til að ítreka að ég er viss um að þegar og ef að því kemur að til þjóðaratkvæðagreiðslu verður boðað um Evrópusambandið muni menn fara mjög rækilega yfir það sem þar er á ferðinni og hver staðan er í Evrópu. Mér finnst hins vegar mikilvægt að sú umræða sé stöðugt í gangi af því að við erum í umsóknarferli. Það á reyndar líka við um okkur sem EES-land að við þurfum að fylgjast mjög grannt með því. Mjög mikil umræða hefur verið undanfarið í Evrópu um gjaldmiðilinn, þau vandræði sem hann hefur lent í undanfarið og ástandið sem ríkir núna í Grikklandi og væri mjög athyglisvert og interessant að ræða í sölum þingsins.